150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

sveitarstjórnarlög.

66. mál
[16:53]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Bara til að það sé alveg skýrt skerðir það frumvarp sem hér liggur frammi ekki á neinn hátt sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Þau geta hagað málum sínum með þeim hætti sem þau kjósa. Þvert á móti er verið að auka frelsi sveitarfélaga til að taka ákvörðun í eigin málum. Greiningarvinnan er tiltölulega einföld. Að minnsta kosti við sem erum í þingliði Sjálfstæðisflokksins höfum verið talsmenn þess að auka fremur frelsi og hætta að þvinga fram einhver ákveðin atriði ef hjá því verður komist. Þetta mun hvorki neyða Reykjavíkurborg né önnur sveitarfélög til að taka ákvörðun um að fækka í sveitarstjórn, eða borgarstjórn í Reykjavík, ef þau kjósa að hafa þann fjölda sem þau vilja og taka tillit til þess hvernig íbúafjöldi þróast í framtíðinni og fjölga eða fækka eftir atvikum, nema síður sé. Það eina sem er sagt hér er að lágmarksfjöldi í sveitarstjórn skuli þó vera fimm. Það eru einu takmörkin sem flutningsmenn leggja til. Að öðru leyti viljum við að þetta sé í höndum sveitarstjórna og íbúa sveitarfélaganna sjálfra. Ég hygg að það ætti að vera alveg ágætissátt um að færa valdið frá ríkisvaldinu eða löggjafarvaldinu heim í hérað og lofa sveitarstjórnarfólkinu í samráði við umbjóðendur sína, íbúana í sveitarfélögunum, að taka ákvörðun um fjölda í (Forseti hringir.) sveitarstjórn, þó með því skilyrði að það séu aldrei færri en fimm.