150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

sveitarstjórnarlög.

66. mál
[17:06]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir þessa athugasemd. Það kann vel að vera að Sjálfstæðismenn hafi ekki verið sammála þessari niðurstöðu á sínum tíma og þá er það bara þannig. Nú erum við samt í þessum veruleika, skulum við segja. Nú er búið að taka þessar ákvarðanir og það liggur fyrir að það eru 23 fulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur, svo að við tökum það sem dæmi. Ég held að við eigum ekkert að vera að hringla með það. Svigrúmið sem talað er um fyrir sveitarstjórnirnar er til staðar. Mörkin fyrir 100.000 manna sveitarfélag eru 23, þ.e. þegar sveitarfélagið er orðið svo fjölmennt. Það þýðir að þá standi að baki hverjum fulltrúa að lágmarki í kringum 4.000 íbúar. Það eru fleiri en þarf til að kjósa einn þingmann á Alþingi Íslendinga og mér finnst það ekkert sérlega vel í lagt, ef ég á að segja alveg eins og er, að hugsa með sér að til að komast í sveitarstjórn, þ.e. í stjórn til að sinna nærþjónustu, þurfi fleiri atkvæði en þarf til að vera kjörinn á löggjafarsamkunduna. Ég held að þessi mörk sem voru valin séu ásættanleg og ég minni hv. þingmann á að auðvitað kann þetta að hafa haft í för með sér einhvern kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. En lýðræðið kostar.