150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra tekur dæmi úr samtímanum þar sem markaðsvextir eru óvenju lágir. Þetta getur og mun fara á verri veg. Það getur vel verið að stór hluti komi betur út. Ég spurði: Er það fráhvarf frá félagslega kerfinu þar sem við ætlum að ná sérstaklega utan um þá sem verst hafa það? Ég ætla aðeins að fara efnislega yfir umsögn ASÍ.

„Með breytingunum mun óvissa um kjör og endurgreiðslubyrði námslána aukast til muna, bæði vegna beinnar tengingar vaxtakjara við markaðsvexti og heimildar sjóðstjórnar að ákvarða vaxtaálag til að standa undir væntum afföllum sjóðsins.“

Með öðrum orðum: Ríkissjóður er ekki að fara að setja krónu meira í kerfið en hins vegar á, ef það verður markaðsbrestur hjá lánasjóðnum, að setja álag á þá sem þegar hafa lært og eru að borga til baka. Þeir eiga að borga fyrir hina. Það er engin félagsleg hugsun í þessu, herra forseti.