150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdirnar sem hafa komið fram hér, og sér í lagi varðandi 14. gr. og niðurfellinguna og áhyggjur hans er varða til að mynda þá sem eru lesblindir og að það sé erfiðleikum háð að fá niðurfellinguna vegna þeirrar fötlunar eða annarrar fötlunar. En þannig er að það eru undanþágur á því, tekið er tillit til þessa og það skiptir verulega miklu máli. Við megum ekki búa til þannig kerfi að það sé algerlega ósveigjanlegt og taki ekki tillit til mismunandi einstaklinga. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að það er vel þekkt að þeir sem eru lesblindir hafi aðra hæfileika þó að þeir eigi í erfiðleikum með að tileinka sér lestur. Við erum sem samfélag að vinna heilmikið með það að auka tækifæri viðkomandi aðila, þannig að sjálfsögðu tökum við tillit til þess.

Hvað varðar styrki og vexti erum við að færa hinu opinbera stuðning. Við erum að gera hann gagnsærri með styrknum og fyrirsjáanlegri hvað það varðar. Það er þessi 30% niðurfelling á höfuðstólnum og hún er alveg örugg. Og það sem við erum líka að gera er að kerfið verður jafnara. Við erum að tala um að sumir aðilar í gamla kerfinu eru að fá allt að 85% niðurfellingu á námsláni sínu en aðrir undir 5%. Mér finnst þetta ekki sanngjarnt, mér finnst þetta ekki réttlátt eins og það er í dag. Við erum að auka jafnræði til náms og auka jafnræði er varðar opinbera styrki. Þar af leiðandi tel ég að kerfið sé sanngjarnara.