150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru ekki litlar spurningar sem þingmaðurinn ber upp, hvernig grunnframfærsla sé reiknuð í samfélaginu. Þetta er náttúrlega dálítið kúnstugt dæmi vegna þess að við erum með ólík viðmið á ólíkum sviðum og einhvern veginn virkar það eins og ekkert samræmi sé til staðar. Það má auðvitað færa fyrir því rök að námsmenn megi þola að vera mögulega með lægri viðmið en til að mynda öryrkjar vegna þess að öryrkjar þurfa að lifa á sinni framfærslu allt sitt líf á meðan námsmaður er í sinni stöðu tímabundið. Þetta er eitthvað sem ég held að við fáum ekki neina niðurstöðu í hér og nú. En ég held að allsherjar- og menntamálanefnd geti örugglega kafað dálítið ofan í þetta og nýtt til þess eflingu Alþingis sem hefur nýlega átt sér stað í því formi að nú er hagfræðingur kominn til starfa á nefndasviði og getur lagst aðeins yfir excel-skjölin með okkur.

Varðandi þarfir fjórðu iðnbyltingarinnar tek ég algjörlega undir að það þurfi fólk með tölvuþekkingu og að hún sé oft fengin með óhefðbundnum námsleiðum, svo að segja. En við skulum ekki gleyma því að það þarf líka fólk með hugmyndaauðgi og gagnrýna hugsun og sköpunargleði og mjög fjölbreyttar gáfur til að byggja samfélag framtíðarinnar. Það er ekki nóg að kunna að forrita hlutinn, það þarf líka að kunna að fá hugmyndina að honum og sjá hvernig honum verði síðan best beitt í samfélaginu. Það er líka skemmtilegra samfélag þar sem við erum með fólk með breiðan grunn.