150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[15:58]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að við séum ekki að gera breytingar sem lúta að því lánasafni sem fyrir er, erum við eigi að síður að gera breytingar. Eins og ég rakti áðan er það þannig eins og búið er um hnútana í dag að sjóðurinn getur ekki veitt lán til einmitt þeirra hópa sem hann þarf að veita lán til nema á grundvelli skuldabréfaútboðsins sem var 2012 og þar af leiðandi með hærri vöxtum. Sjóðurinn mun áfram hafa félagslegt hlutverk, hann mun áfram hafa það hlutverk sem snertir til að mynda frumvarp til sérstakra hlutdeildarlána til tekjulægra fólks, sem mun vonandi koma inn síðar í vetur, og til lánveitinga á markaðsbrestssvæðum úti á landi. Þá munum við ekki miða við skuldabréfaútboð sem var síðast 2012. Þá verður það ákvörðun stjórnar hverju sinni hvaða vaxtakjör skuli miða við. Við erum því að breyta því þannig að hin nýja stofnun muni geta betur þjónað einmitt þeim markhópi sem hv. þingmaður nefndi í andsvari sínu.