150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

þinglýsingalög og skráning og mat fasteigna.

371. mál
[16:37]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á þinglýsingalögum og lögum um skráningu og mat fasteigna. Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar til að tryggja að rafrænar þinglýsingar geti hafist í samræmi við fyrirliggjandi verkefnaáætlun. Með lögum um breytingu á þinglýsingalögum, lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 151/2018, var heimilað að þinglýsa sjálfvirkt og með rafrænni færslu réttindum og skyldum samkvæmt skjali. Lögin tóku gildi 1. apríl 2019. Frá þeim tíma hefur verið unnið að undirbúningi innleiðingar rafrænna þinglýsinga þannig að unnt sé að nýta þá tækni sem við búum yfir í dag og gera framkvæmd þinglýsinga sjálfvirka. Stefnt er að innleiðingu fyrsta áfanga fyrir lok árs 2019 og að rafrænar þinglýsingar hefjist með aflýsingu skjala.

Til að unnt sé að hefja þann fyrsta áfanga er nauðsynlegt að kveða skýrt á um heimild til að aflýsa skjölum með rafrænni færslu. Aflýsing skjala felur í sér aðgerð við að nema skjal úr þinglýsingu þannig að eignarhafti, sem er meginatriði hins þinglýsta skjals, verði aflétt af hlutaðeigandi eign. Í dag standa rétthöfum til boða tvær aðferðir við aflýsingu skjala, annars vegar með þinglýsingu sérstakrar yfirlýsingar til staðfestingar á brottfalli eignarhaftsins og hins vegar með því að árita frumrit skjalsins sem var þinglýst um að því megi aflýsa. Verklagið er að hluta til rafrænt þar sem þinglýsingabókin er á rafrænu formi en það býður hins vegar ekki upp á sjálfsafgreiðslu aflýsingarbeiðanda eins og umræddar breytingar miða að.

Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagður grunnur að því að unnt verði að auka sjálfvirkni þinglýsingarkerfisins með því að heimila fjármálastofnunum og öðrum rétthöfum að aflýsa skjölum rafrænt í þinglýsingarkerfinu. Kjósi rétthafi að aflýsa skjali með þinglýsingu sérstakrar yfirlýsingar verður skjalið sjálft ekki sent sýslumannsembætti til afgreiðslu heldur verða helstu atriði þess skráð í kerfið af útgefanda í gegnum sérstaka þjónustugátt og þannig sent til þinglýsingar. Kjósi rétthafinn að aflýsa skjali með því að árita frumrit þess um aflýsingu mun hann aflýsa skjalinu sjálfur í þinglýsingarkerfinu í stað þess að afhenda sýslumanni frumritið með áritun um aflýsingu þess.

Lagt er upp með að nánar verði fjallað um aflýsingu með rafrænni færslu í reglugerð, þar á meðal um þær upplýsingar sem krafist verður skráningar á og um ferilinn að öðru leyti. Gert er ráð fyrir að beiðni um aflýsingu verði send þinglýsingarstjóra rafrænt í gegnum vefþjónustu sem þinglýsingarbeiðendur tengjast, auk þess sem þeir hafa heimild til að tengjast vefþjónustunni geri þeir sérstakan þjónustusamning um notkun hennar.

Með frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar sem miða að því að kveða skýrt á um að veðhafar áriti veðskuldabréf og tryggingarbréf um veðbreytingar með sama hætti og verið hefur. Við gildistöku laga nr. 151/2018 féll framangreindur áskilnaður niður en rétt þykir að lögfesta hann á ný þar sem hefðbundnar þinglýsingar skjala muni ekki alfarið leggjast af á næstunni. Þannig er gert ráð fyrir því að ávallt þegar breyting á veðrétti fer fram á grundvelli skjals, hvort sem um er að ræða handhafabréf eða nafnbréf, sé yfirlýsingu um breytingu á veðrétti ekki þinglýst nema veðbréfið sjálft eða endurrit þess, með áritun um veðbreytinguna, sé sýnt og afhent þinglýsingarstjóra. Breytingin hefur ekki áhrif á framkvæmd þinglýsinga með rafrænni færslu að neinu leyti.

Hæstv. forseti. Grundvöllur þess að þinglýsing og aflýsing með rafrænum hætti geti átt sér stað er að eigandi kröfu samkvæmt þinglýstu veðskjali sé rétt skráður í þinglýsingabók. Að öðrum kosti getur hann ekki framkvæmt breytingar á réttindum sínum með þinglýsingu rafrænnar færslu, svo sem vegna aflýsingar, veðbreytinga eða skilmálabreytinga. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í þinglýsingalögum ber að leiðrétta skráningu kröfuhafa samkvæmt veðbréfum öðrum en handhafabréfum í þinglýsingabók. Fyrir liggur að flest veðskuldabréf eru í eigu fjármálastofnana, lífeyrissjóða og opinberra aðila og því var það verklag ákveðið með lögum nr. 151/2018 að leiðrétting þessara aðila skyldi framkvæmd með tölvukeyrslum. Við undirbúning að leiðréttingu á skráningu kröfuhafa samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í þinglýsingalögum hefur komið í ljós að framangreindir kröfuhafar þarfnast beinlínis tengingar við þinglýsingabók svo hægt sé að framkvæma leiðréttinguna með áreiðanlegum hætti. Leiðrétting á skráningum kröfuhafa er forsenda þess að rafrænar þinglýsingar og aflýsingar geti hafist og því mikilvægt að hún verði framkvæmd á einfaldan og skilvirkan hátt með rafrænni lausn og án viðbótarkostnaðar fyrir þinglýsingarbeiðendur.

Til að bregðast við þessu er í frumvarpinu lagt til að framangreindir kröfuhafar fái gjaldfrjálsan aðgang að vélrænum fyrirspurnum í takmarkaðan tíma vegna leiðréttingarinnar. Þar sem um er að ræða einskiptisaðgerð sem ekki lá fyrir að væri nauðsynleg við samningu frumvarps þess sem varð að lögum nr. 151/2018 er miðað við að ríkissjóður verði ekki af tekjum vegna þessara breytinga. Þjóðskrá Íslands er falið að stýra aðgengi kröfuhafanna að veðbandayfirlitum og ganga frá þjónustusamningi við þá vegna aðgerðarinnar.

Hæstv. forseti. Með innleiðingu rafrænna þinglýsinga er stigið mjög mikilvægt skref í uppbyggingu innviða samfélagsins og upptöku stafrænnar tækni í stjórnsýslu og viðskiptum. Vonir standa til þess að aukin sjálfvirkni hafi í för með sér hagræði fyrir alla þá sem koma að þinglýsingum og byggja rétt sinn á þinglýsingum, hvort sem það eru embætti sýslumanna, kröfuhafar eða aðrir.

Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.