150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lyfjalög.

390. mál
[11:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hér erum við í raun og veru að breyta þessu fyrirkomulagi eins og kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanns og já, það er svo að ákvörðun Landspítala gildir fyrir allar stofnanir. Þarna erum við að tala um, bæði til að tryggja hagræði, markvissari vinnu og samræmingu, að sérstök lyfjanefnd starfi á Landspítala fyrir allar heilbrigðisstofnanir. En þó er rétt að halda því til haga að gert er ráð fyrir að sérstök lyfjanefnd starfi hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu sem vinni að öruggri og skynsamlegri notkun lyfja innan heilsugæslunnar, hjúkrunarheimila og dvalarheimila. Það er sérstaklega vísað til þess þegar um er að ræða þróunarmiðstöðina. Það er líka rétt að taka fram, þar sem hv. þingmaður nefnir nákvæmlega þetta mál, að það fyrirkomulag sem lagt er til hér í þingmálinu er afrakstur töluvert mikillar vinnu þar sem voru auðvitað álitamál um það hversu miðlægar ákvarðanir eiga að vera sem varða svona ríka hagsmuni o.s.frv. Hins vegar erum við að tala um mjög mikilvæga þætti sem varða líka jöfnuð og greitt aðgengi sjúklinga að heilbrigðisþjónustu, að það sé skýrt og gagnsætt ferli sem er skilgreint og skýrt sem ákvörðun á stjórnsýslustigi sem sæti þá ekki endurskoðun sem slík. Þess vegna skiptir máli að niðurstaðan sé eins skýr og hér er lagt til.