150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lyfjalög.

390. mál
[11:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Um þetta er svo sem ekki fjallað sérstaklega í þessu frumvarpi en ég vil hins vegar nota þetta tækifæri til að þakka hv. þingmanni fyrir að halda þessum sjónarmiðum til haga hér í ræðustól Alþingis ítrekað. Það er þannig í þessu ríka samfélagi okkar að það er fólk sem neitar sér um heilbrigðisþjónustu vegna fátæktar. Það neitar sér um læknaheimsóknir og það neitar sér um lyf og það er meira að segja í þeirri stöðu að taka ákvörðun um hvort það á að leysa út lyf A eða B eða hvorugt. Þetta vitum við, þetta er staðreynd og þetta er til skammar og er í raun og veru blettur á ríku samfélagi að staðan skuli vera með þessu hætti. Við höfum rannsóknir og úttektir sem segja okkur þetta.

Við vitum það líka að þegar samfélög eru þannig að ætlast til að almenningur greiði úr eigin vasa fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf umfram 15% á ársgrundvelli, þá eru auðvitað allar tölur reiknaðar inn í, eru líkur á því að það verði félagsleg mismunun í aðgengi að heilbrigðisþjónustu vegna efnahags. Það segja Sameinuðu þjóðirnar. Það segir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin okkur. Á Íslandi er greiðsluþátttakan þannig að við erum að borga úr eigin vasa að jafnaði 17% ríflega fyrir heilbrigðisþjónustu. Þá er allt undir. Þessu verðum við að breyta með því að setja fjármagn sérstaklega í það að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Við erum byrjuð á því. Mitt markmið þar er að beina sjónum fyrst og fremst að þeim sem við köllum viðkvæma hópa. Við byrjuðum á því að setja fjármagn í það að stórauka niðurgreiðslur til tannlækninga fyrir aldraða og öryrkja. Við gerðum heilsugæsluna gjaldfrjálsa fyrir aldraða og öryrkja um síðustu áramót og við ætlum að halda áfram aðgerðum í því að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og ég mun birta áætlun þess efnis á allra næstu vikum. Þar verð ég áfram hér eftir sem hingað til með það að markmiði að fátækt fólk þurfi ekki að neita sér um heilbrigðisþjónustu.