150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2019 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

429. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2019, um breytingu á viðauka við EES-samninginn er varðar neytendavernd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá utanríkisráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 14. júní 2019 um breytingu á viðauka um neytendavernd við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2017/2394 frá 12. desember 2017, um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar nr. 2006/2004.

Framsetning tillögunnar telst að mati hv. utanríkismálanefndar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála og leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt.

Þess má geta að hv. þm. Smári McCarthy skrifar undir álitið með fyrirvara. Hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson og Gunnar Bragi Sveinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins í hv. utanríkismálanefnd.

Undir þetta nefndarálit rita sú er hér stendur, Bryndís Haraldsdóttir, Logi Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Sigríður Á. Andersen og Smári McCarthy, með fyrirvara.