150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[17:46]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég veit að hv. þingmaður er betur að sér í lögum um opinber fjármál en fjölmargir þingmenn hér inni og þótt víðar væri leitað og hefur kynnt sér þau í þaula og tekið mjög alvarlega einmitt þetta eftirlitshlutverk, m.a. af hálfu fjárlaganefndar, með framkvæmd laga um opinber fjármál. Þá velti ég upp sömu spurningu og ég spurði annan hv. þingmann að fyrr í þessari umræðu: Telur hv. þingmaður að ef við værum að setjast yfir gerð slíks samnings í dag, eins og kirkjujarðasamkomulagið er, myndi hann standast lög um opinber fjármál hvað skýrleika varðar, um hvað er verið að semja o.s.frv.? Og ef ekki, er það ekki sjálfstætt tilefni til þess að taka upp samkomulagið, tryggja að til framtíðar standist það lög um opinber fjármál hvað skýrleika varðar?

Ég velti því sérstaklega fyrir mér, eins og hv. þingmaður kom inn á í fyrra svari sínu, að þjóðkirkjunni eru falin ýmis verkefni, við getum alveg tekið undir það, en þau gætu vissulega verið annars staðar. Við erum að vísa til ákveðinnar félagsþjónustu í raun og veru sem þjóðkirkjan innir af hendi, sáluhjálp sem getur vissulega verið veitt á öðrum sviðum, m.a. með auknum stuðningi til sálfræðiþjónustu sem hefur margoft verið kallað eftir í þessum sal en því miður virðist meiri hluti þingheims sjá ofsjónum yfir þeim kostnaði sem þar gæti fallið til en hafa minni áhyggjur af kostnaðinum við þetta. Er ekki lágmarkskrafa að það sé skýrt kveðið á um í slíkum samningi fyrir hvað nákvæmlega er verið að greiða og hvernig sé hægt að sinna eftirliti með því að þeirri þjónustu sé sinnt?