150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[11:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að þetta samningsákvæði um samningstímann sé einfaldlega ólöglegt. Ef kemur til með að reyna á það verði a.m.k. hægt að gera einhverjar gagngerar breytingar á því strax eftir fimm ár, ef ekki fyrr því að þarna er ekki neitt ákvæði um lengdina.

Mig langaði til að draga umræðuna pínulítið inn í fjárlaganefnd út af þessu máli. Þessi samningur, tengdur frumvarpinu, er nauðsynlegur fyrir launakjör starfsmanna sem við erum að færa frá ríkinu til þjóðkirkjunnar. Í umræðunni um þetta samkomulag í fjárlaganefnd bar tvímælalaust á góma þetta vandamál tengt lögum um opinber fjármál en einhverra hluta vegna hreyfði meiri hluti fjárlaganefndar í sínu eftirlitshlutverki engum mótmælum við þessu fyrirkomulagi sem mér finnst dálítið áhugavert. Ég velti fyrir mér hvort þarna sé ekki ákveðinn galli, skortur á aðskilnaði milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds sem birtist í nákvæmlega þessu máli. Ef það væri aðskilnaður á milli þessara tveggja aðila hefði fjárlaganefnd að sjálfsögðu gert athugasemdir við þetta augljósa brot, að því er mér finnst, á lögum um opinber fjármál en gerði ekki af því að framkvæmdarvald og löggjafarvald eru í þessu sambandi.