150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[15:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á þeim málum sem ég fjallaði um í andsvari við hv. þm. Þorstein Víglundsson. Við erum að fjalla um raunverulega eigendur, en þá þarf aðgengi að því hverjir þeir eru og hver sem er á að geta haft aðgengi að því hverjir raunverulegir eigendur eru. Til þess þarf ekki bara opið aðgengi að fyrirtækjaskrá eins og á að vera núna, maður hefur heyrt ýmsar sögur um stirðleika þar, heldur þarf einnig opið aðgengi að ársreikningaskrá og hluthafaskrá, mjög reglulegt aðgengi sérstaklega að hluthafaskrá, því að líka heyrast sögur um það að hlutir skipti um hendur á heppilegum tímum áður en birta þarf þá í ársreikningi þannig að einhverjir eigendur sjást jafnvel ekki, þeir sem eru innan árs.

Eitt er mjög algengt þegar talað er um svona mál, en það er orðið „viðskiptaleynd“. Ég er farinn að verða meira og meira efins um þetta orð, viðskiptaleynd, sem ástæðu fyrir hverju sem er. Ég er farinn að telja að viðskiptaleynd sé ekki ástæða til að fela neitt, sérstaklega í samskiptum aðila við hið opinbera. Það sé einfaldlega ekkert sem heiti viðskiptaleynd þegar kemur að samningum við hið opinbera og meira að segja ekki heldur á milli lögaðila, fyrirtækja á einkamarkaði, þegar allt kemur til alls, mig langar að ganga það langt, en til að byrja með a.m.k. gagnvart hinu opinbera.

Viðskiptaleynd hefur oft verið notuð sem einhvers konar afsökun fyrir því að það þurfi ekki að segja frá neinu. Hún er notuð sem afsökun fyrir því að fela jafnvel aðgerðir, ákvarðanir, samninga eða eitthvað slíkt sem ætti með réttu að vera aðgengilegt samkeppnisaðilum á grundvelli upplýsingalaga o.s.frv. Ég held nefnilega að horft sé of þröngt á þau atriði sem varða viðskiptaleynd og ég held að við þurfum að horfa á þau á dálítið víðari grunni og leggja meiri áherslu á gagnsæissjónarmið. Við þurfum jafnvel að ganga það langt með raunverulega eigendur að þegar um er að ræða aðila með ógagnsætt eignarhald þá sé einfaldlega lokað á þau viðskipti: Fyrirgefðu, ég veit ekki hver þú ert. Ég get ekki vottað við hvern ég er að eiga viðskipti við. Þar af leiðandi gerast þau ekki. Einfaldlega þannig.

Í umræðum um aflandsfélög eru skuggaeigendur, eigendur Íslands eins og það var kallað, minnir mig, í þættinum um Panama-skjölin þar sem var listi af einhverjum nöfnum sem áttu í hundruð fyrirtækja fram og til baka. Það er mjög erfitt að sannreyna hvort einhverjir samningar séu þar á bak við, sem er bara stungið inn í einhvern peningaskáp og læstir þar sem er síðan hægt að draga upp þegar um raunverulegar ákvarðanir og eign er að ræða. Eins og lög um raunverulega eigendur ættu að virka væru slíkir samningar einfaldlega ekki tækir fyrir dómstólum. Ef skuggaeigendur sem eru skráðir sem eigendur ákveða að selja allt og stinga peningunum í vasann þá gæti raunverulegi eigandinn, innan stórra gæsalappa, sem er með þennan samning í bankahólfinu sínu, ekki komið og sagt: Nei, ég átti þetta. Af því að hann var aldrei skráður í neina opinbera skrá sem raunverulegur eigandi. Þá er sá samningur einfaldlega ólöglegur.

Þetta er eitthvað sem verður að vera til staðar til að losna við þessi sýndarviðskipti og sýndareignarhald. Þetta kemur rosalega víða við. Það var frétt fyrir ekki svo löngu á RÚV þar sem fjallað var um peningaþvætti. Þar var sérstaklega talað um spilakassa. Í nýlegri skýrslu lögreglunnar um áhættumat vegna peningaþvættis er í samandregnum niðurstöðum áhættunni skipt niður í litla, miðlungs eða verulega mikla hættu. Þar eru nokkur atriði sem teljast vera mikil hætta á hérna á Íslandi; frumbrot skattsvika, flutningur reiðufjár til og frá Íslandi og reiðufjárviðskipti. Svo er metin veruleg hætta vegna reiðufjár í umferð, m.a. háir peningaseðlar. Og það er fleira hérna. Raunverulegur eigandi er einmitt skráður sem mikil áhætta á Íslandi sem og peningasendingar, lögmenn, sem er áhugavert, og síðan söfnunarkassar og happdrættisvélar. Að lokum er hér aflétting fjármagnshafta, en það er einmitt verið að biðja um skýrslu um fjárfestingarleið Seðlabankans og fá greiningu á því máli. Öll þessi atriði eru merkt með rauðu í skýrslunni sem mikil hætta, mikil ógn, þegar kemur að peningaþvætti. Skýrslan heitir Áhættumat vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka og kom út í apríl árið 2019 frá ríkislögreglustjóra.

Verkefnin eru ekkert lítil. Þarna undir eru skattsvik sem er farið betur yfir í skýrslunni, hvernig þau skiptast. En við sjáum það einfaldlega núna, eins og ég fór yfir í andsvari við hv. þm. Þorstein Víglundsson áðan, að sagan segir okkur að við séum ofsalega léleg í að bregðast við þeirri áhættu sem okkur hefur verið ítrekað bent á í ansi langan tíma. Bankahrunið eins og það blasir við okkur og það net aflandsfélaga sem var spunnið upp í bólumyndun bankakerfisins, hvernig Panama-skjölin afhjúpuðu það aflandsfélaganet — og það var bara leki frá einni lögmannsskrifstofu. Nú erum við að sjá í Samherjaskjölunum net frá öðru svæði, þannig að vandamálið er tvímælalaust mjög mikið. Til eru greiningar á því að milljarðar, tugmilljarðar jafnvel, fari úr efnahagskerfi Íslands á hverju ári, að um sé að tefla skatttekjur upp á um 10 milljarða, minnir mig að hafi verið, námundun upp á það. Í skýrslu fjármálaráðherra um eignir Íslendinga í aflandsfélögum voru það tæpir 5 milljarðar, minnir mig, milli 3–5 milljarðar, ég man ekki nákvæmlega tölurnar. Mér finnst einmitt merkilegt að í þeirri skýrslu, sem var stungið undir stól fyrir kosningarnar 2016, var einmitt hvatt til nánari skoðunar og nánari greiningar. Ég sé ekki að það hafi mikið verið gert í kjölfar hennar þrátt fyrir ítrekuð orð og hvatningu fjármálaráðherra á þeim tíma, þetta væri mikilvægt efni í umræðuna o.s.frv. Ég sé ekki að mikið hafi verið gert síðan þá og í rauninni svo lítið að við lendum einmitt á gráum lista um peningaþvætti. Við sjáum Samherjamálið koma upp. Það hefði verið hægt að koma upp um það fyrr. Að hve miklu leyti hefði það komið í veg fyrir misnotkun á auðlindum í Namibíu ef gripið hefði verið fyrr inn í eins og ítrekað hefur verið bent á?

Þetta er eitt af atriðunum sem er oft gagnrýnt eða oft sagt að ekki eigi að skoða of mikið: Það á ekki að skoða fortíðina of mikið. Við verðum að horfa til framtíðar og laga hlutina til framtíðar. Já, en þá berum við aldrei ábyrgð á þeim mistökum sem voru gerð í fortíðinni og án þess að gera það náum við aldrei að vinna upp traust. Menn komast upp með að það sé í raun brotið á samfélagi okkar. Við erum öll í samfélaginu að borga til sameiginlegra verkefna. Þegar einhverjir taka ekki þátt í því þá auka þeir á kostnað allra hinna, augljóslega. Þegar vantar 10 milljarða af skattfé frá þessum og hinum aðilum sem stunda þess háttar viðskipti fá hinir annaðhvort verri þjónustu eða þurfa að borga meira fyrir þá þjónustu sem við öll notum í samfélaginu. Það er eitthvað sem einhverjir þurfa að axla ábyrgð á, tvímælalaust, og við eigum ekkert að skammast okkar fyrir að leita að sökudólgum og vera í einhverjum æfingum að benda fingri út um allt heldur er áskorunin einfaldlega sú að þetta þarf að skoða, það þarf að rannsaka það. Í því felst engin ásökun um að einhver einn beri ábyrgð eða eitthvað því um líkt. Vissulega er ákveðinn grunur og athyglin beinist að ákveðnum aðilum, annaðhvort vegna afskipta eða afskiptaleysis eða því um líkt, en þá er þeim mun betra að fara í rannsókn á málinu til að upplýsa um það og hreinsa burt þann grun. Í vantraustsástandi, þegar kemur upp gróusaga, grunur um eitthvað eða ábendingar um spillingu eða eitthvað þess háttar, skiptir öllu máli að rannsaka þær ásakanir því að annað hvort gerist, annaðhvort reynist ásökunin sönn, og þá er hægt að gera eitthvað í því og það eykur traust á því að kerfið sé að virka eins og það á að virka, eða ásökunin reynist ósönn og þá er búið að slá á þá gróusögu og skapa grundvöll fyrir umræðu í framhaldinu um að kerfið sé ekki eins slæmt og verið sé að láta það líta út fyrir. Við þurfum að tækla þennan grundvöll umræðunnar, að hún grundvallist á staðreyndum, upplýsingum og gögnum en ekki gróusögum og falsfréttum. Þegar þær koma fram, sérstaklega í vantraustsástandi, þarf að skoða þær, alltaf. Það þarf að taka þær alvarlega, hversu fjarstæðukenndar sem þær virðast. Ef þær eru mjög fjarstæðukenndar ætti að vera mjög auðvelt að benda á af hverju þær eru það. Ef það reynist einhver fótur fyrir slíkum ásökunum þá á að sjálfsögðu að taka þau atriði alvarlega og skoða þau ofan í kjölinn. Ágóðinn af því að gera það er ekkert nema jákvæður.

Það er á þeim nótum sem við eigum að taka tillit til t.d. þessarar skýrslu ríkislögreglustjóra og til þeirra ábendinga og ástæðunnar fyrir því að við erum á gráum lista FATF. Það er ástæða fyrir því, sama hversu lítið hæstv. dómsmálaráðherra gerði úr því rétt áður en við lentum á þeim lista, og sama hversu mikið var gert úr því áður en við settum lög sem áttu að koma í veg fyrir að við myndum enda á þeim lista. Það var allt saman mjög kaldhæðnislegt. Við þurfum að taka þessi mál alvarlega og við þurfum að láta það sjást hversu alvarlega við tökum þau. Það er einungis þannig sem við getum aukið traust aftur á stjórnkerfinu og það er einungis þannig sem við komumst hjá popúlisma og lýðskrumi í umræðunni því að í vantraustsumhverfi tröllríður lýðskrumið auðveldlega umræðunni af því að hún grundvallast aldrei á staðreyndum og gögnum og rökum.