150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[15:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er kannski efasemdarmaðurinn í mér, stundum finnst mér viðskiptaleynd vera notuð sem fyrirsláttur gagnvart því að veita upplýsingar, það sé ekki fótur fyrir því að nota hana sem afsökun. Ég beini sjónum mínum sérstaklega að viðskiptum hins opinbera t.d. í útboðum og þess háttar, og þá yfirleitt eftir á, þegar útboð eru búin séu skilmálar samninga aðgengilegir, jafnt þingmönnum sem öllum öðrum, til að hægt sé að sýna fram á að útboðin hafi farið vel og skilmerkilega fram og á réttan og heiðarlegan hátt o.s.frv.

Það eina sem ég legg áherslu á hérna er að viðskiptaleynd er mjög þröngt notuð. Vissulega eru ástæður fyrir því að hafa viðskiptaleynd, ég dreg alls ekkert úr því, en ég tel hins vegar að hún sé ofnotuð. Það er einhvers staðar á því bili sem við hv. þingmaður mætumst líklega. Kannski myndi ég vilja ganga aðeins lengra í gegnumlýsingunni hvað það varðar en hv. þingmaður. En það er einhvers staðar á því bili miðað við eðlilegustu lagakröfur og trúnað innan fyrirtækja og það hvernig ég skynja núverandi notkun á viðskiptaleynd. Rétt bil er einhvers staðar þar á milli. En ég held að við séum komin of langt í að nota viðskiptaleynd til að leyna upplýsingum sem almennt séð varða almenning og opinbert eftirlit.