150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[13:35]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér erum við að staðfesta fullkominn viðsnúning í ríkisfjármálunum til hins verra. Samkvæmt fjárlögum átti afgangurinn hjá ríkinu í ár að vera 29 milljarðar kr., það áttu að vera 29 milljarðar kr. plús á þessu ári, en reyndin verður halli upp á 15 milljarða. Því er um að ræða rúmlega 43 milljarða kr. sveiflu á þessu ári til hins verra. Auðvitað er margt sem ekki var hægt að sjá fyrir en þetta staðfestir hins vegar orð stjórnarandstöðunnar frá því í fyrra um að forsendur núgildandi fjárlaga væru byggðar á óskhyggju og óraunsæi. Þá eru ýmis útgjöld í fjáraukanum hér ekki ófyrirséð, en það er skilyrði fjáraukalaganna.

Herra forseti. Stóru tíðindin hér eru hins vegar viðsnúningur í ríkisfjármálunum og hversu nauðsynlegt það er fyrir ríkiskassann (Forseti hringir.) að fá hvíld frá fjármálaóstjórn Sjálfstæðisflokksins.