150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[13:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þessu frumvarpi er enn agaleysi sem birtist í því að þau skilyrði sem verður að uppfylla til að beiðni um fjárveitingu fái brautargengi í frumvarpinu og hvað þá samþykki á Alþingi eru allt of sjaldan uppfyllt. Þau skilyrði eru að fjárbeiðni sé tímabundin, ófyrirséð og óhjákvæmileg. Við athugun kemur allt of oft í ljós að þau uppfylla í fáum tilvikum skilyrði laganna. Því er ekki hægt að samþykkja beiðni um aukafjárveitingu þegar hún stenst ekki framangreind skilyrði laganna.

Þó að fjárveiting til Sjúkrahússins á Akureyri og desemberuppbót til öryrkja uppfylli ekki skilyrði laganna munum við styðja þær tillögur. Síðan munum við að sjálfsögðu styðja lið 10.20 Trúmál í ljósi þess hvernig meiri hlutinn hélt á þessu máli og gætti þess ekki að hafa þessi verkefni í fjárlögum eins og honum bar.