150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[17:35]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það væri óskandi að öll þau andsvör sem ég fæ í þessum sal væru á þessa lund þannig að ég þakka kærlega fyrir það. Ég vil sömuleiðis þakka hv. þingmanni fyrir þann stuðning sem hann hefur sýnt þessum málaflokki og þessu máli. Hann er auðvitað, eins og allir hér vita, sérfræðingur í efnum er lúta að hagsmunum eldri borgara og starf hans hefur svo sannarlega ekki farið fram hjá neinum í þessum sal og vonandi fregnast sem víðast. Ég fagna sérstaklega breytingu nefndar sem hv. þingmaður situr í, um að útvíkka nefndina svo að fleiri fagaðilar geti komið inn í vinnu hennar. Ég held að hér sé á ferð einfaldlega eitt af þeim ágætu málum sem mætti kannski vekja athygli þjóðarinnar á að við í þessum blessaða sal getum verið sammála um og erum sammála um. Við eigum að vera ófeimin að draga fram að margt sameinar alla flokka sem eru á þingi. Þetta mál sem lýtur að rannsókn og aðgerðum gegn þunglyndi eldri borgara er gott dæmi um að þegar við snúum bökum saman getum við svo sannarlega náð árangri og stuðlað að aukinni vellíðan samborgara okkar.