150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[11:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins til að eiga orðastað við hv. formann velferðarnefndar varðandi afgreiðslu þessa máls. Nú er ég áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd og sem slíkur samþykk þessu minnihlutaáliti, ekki síst vegna þeirrar gagnrýni sem þar kemur fram á afgreiðsluna sjálfa. Í ljósi þess að þetta er fjarri því að vera eina málið sem er hér til afgreiðslu í þingsal, á lokadögum fyrir þinghlé, sem fær svona fljótaskrift, þrátt fyrir að hafa verið til umræðu í töluverðan tíma í samráðsgátt stjórnvalda og hafa síðan verið í langan tíma í meðferð ráðuneyta, langar mig að nota tækifærið hér, frekar en að eyða tímanum í tiltekin efnisatriði sem komu mjög skýrt fram í ræðu hv. formanns fyrir þessu minnihlutaáliti, til að velta því upp hvernig þetta fyrirkomulag með samráðsgáttina, sem nú er að verða tveggja ára gamalt, hafi gengið, hvort við séum að ná þeim árangri sem að var stefnt í upphafi eða hvort það sé mögulega að raungerast, sem við óttuðumst mörg og þingheimur ræddi töluvert, að með þessari samráðsgátt, eins mikilvæg og jákvæð og hún getur verið þegar hún er rétt notuð, sé verið að ganga óeðlilega á tíma þingsins til þess að vinna mál og afgreiða þau svo að góður bragur sé að. Það er eiginlega að koma fram aftur og aftur að mál frá ráðuneytum, frá framkvæmdarvaldinu, fá lengri tíma í samráðsgátt, eru lengur til meðferðar eftir þær umsagnir sem þar koma fram, taka jafnvel umtalsverðum breytingum og er síðan ætlað að fara á harðahlaupum í gegnum þinglega meðferð og til afgreiðslu hér í þingsal.

Mig langar aðeins að fá að heyra skoðanir hv. formanns velferðarnefndar á þessu vinnulagi.