150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður þarf að hlusta aðeins. Þetta hefur ekkert með skoðanir að gera. Ég spurði ekki hvort þetta stæðist stjórnarskrá. Ég spurði hvernig það uppfyllti stjórnarskrárákvæðið. Ég sagði að 15 ára tíminn stæðist ekki lög um opinber fjármál, til að hafa það alveg á hreinu. Það eru auknar og nýjar skuldbindingar af hálfu ríkisins í þessu. Hvað t.d. um fækkun á þeim fjölda presta sem fyrra samkomulag greiðir fyrir? Þeim hefur fækkað um tvo síðan það var gert því að skráningum í þjóðkirkjuna hefur fækkað síðan kirkjujarðasamkomulagið var gert. Nú í dag er tæpur helmingur þeirra sem fæðast skráður í þjóðkirkjuna þannig að þegar er fyrirséð að á næstu árum muni fækkunin þar af leiðandi verða enn þá meiri, miðað við þá grunnsviðsmynd, á móti því að 90% af þessum samningi er með innbyggða launavísitölu. Þar sem ekki er lengur miðað við fjölda þeirra sem eru skráðir er það aukin skuldbinding.

Þá var heldur engu svarað um hvernig stæði með uppgjörið á þeim veraldlegu eignum sem færðust á milli ríkis og kirkju, því að óneitanlega eru þær endanlegar, en þessi samningur gerir ekki ráð fyrir uppgjöri á þeim endanlegu eignum.