150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta sem ég útlistaði áðan. Það er kannski einhvers konar orðhengilsháttur sem felst í því að það sé mikill munur á því að spyrja hvernig eitthvað standist stjórnarskrá eða hvernig eitthvað fari í bága við hana. Við gerum ráð fyrir því að ef eitthvað fer ekki í bága við stjórnarskrá hljóti það að standast hana. (Gripið fram í.) Nei, ég á dálítið erfitt með þetta, þú verður kannski að orða þetta skýrar. Ef hv. þingmaður hefur efasemdir um það hvort þessi lagasetning standist stjórnarskrá … (Gripið fram í.) — Með leyfi, hvað varstu að spyrja um? (BLG: Hvernig uppfyllir þetta stjórnarskrárákvæðið?) Hv. þingmaður gerir mikinn eðlismun á spurningunni hvernig einhver hlutur uppfylli stjórnarskrárákvæði og spurningunni hvort einhver hlutur standist stjórnarskrárákvæði. Ég sjálfur geri ekki allan greinarmun á þessu og hann þyrfti þá að útskýra fyrir mér betur í hverju sá munur lægi. En ef hv. þingmaður hefur efasemdir um að þetta uppfylli stjórnarskrárákvæðið, ef við notum hans eigið orðalag, þá væri nær að koma hingað í stólinn og útlista með hvaða hætti það gerði það ekki.