150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Ég flyt hérna nefndarálit 2. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar í máli nr. 449, um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nánar tiltekið viðbótarsamning íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar sem hefur verið hér til umræðu. Ég ætla að byrja á að lesa upp nefndarálitið, ekki langt en kjarnyrt að mínu mati.

Viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar sem var undirritaður 6. september sl. felur í sér endurskoðun á kirkjujarðasamkomulaginu frá 1997 og samningi frá 1998 um nánari útfærslu á kirkjujarðasamkomulaginu. Með viðbótarsamningnum fellur samningurinn frá 1998 brott en kirkjujarðasamkomulagið heldur gildi sínu með þeim breytingum sem felast í viðbótarsamningnum.

Það er mat 2. minni hluta að með undirritun viðbótarsamningsins sé ríkisstjórnin að gæta hagsmuna þjóðkirkjunnar fremur en skattgreiðenda en eðlilegra væri að samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar væri að gera greiðslurnar sem samið var um með kirkjujarðarsamkomulaginu endanlegar. Það skýtur skökku við að ríkið skuli þurfa að standa straum af gagngjaldi um ófyrirséða framtíð fyrir eignir sem ríkið hefur þegar fengið afhentar og greitt gjald fyrir í rúma tvo áratugi. Þá telur 2. minni hluti kirkjujarðasamkomulagið einstaklega sérkennilegt samningsfyrirkomulag og einkennilegt að stjórnvöld vilji viðhalda því.

Standi vilji ríkisstjórnarinnar til raunverulegs aðskilnaðar ríkis og kirkju verður að ganga lengra, en slíkum aðskilnaði verður aðeins náð með afnámi stjórnarskrárverndar þjóðkirkjunnar sem og afnámi laga sem tryggja þjóðkirkjunni sérstaka stöðu umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Þá tekur 2. minni hluti fram að hann styður slíkan aðskilnað, að sjálfsögðu.

Þá bendir 2. minni hluti á að takmörkuð aðkoma Alþingis að málinu skjóti skökku við. Hér er um að ræða samning sem varðar verulega hagsmuni ríkisins og skattgreiðenda. Þrátt fyrir það er Alþingi aðeins ætluð formleg aðkoma að málinu, þ.e. að staðfesta lagabreytingar sem leiða af viðbótarsamningnum, og má færa rök fyrir því að samþykki kirkjuþings vegi að mati ríkisstjórnarinnar þyngra en samþykki Alþingis. Þinglegri meðferð málsins hafa verið settar þröngar skorður þar sem málið er seint fram komið, tími gafst ekki til að senda það í umsagnarferli og takmarkaðir möguleikar voru á gestakomum. Þessi vinnubrögð endurspegla að mati 2. minni hluta sérkennilegt viðhorf ríkisstjórnarinnar til málefna kirkjunnar.

Annar minni hluti telur að einstök atriði frumvarpsins séu í sjálfu sér ágæt en í ljósi þess að frumvarpið er grundvallað á kirkjujarðasamkomulaginu sem 2. minni hluti telur bæði ómálefnalegt og ósanngjarnt sér 2. minni hluti sér ekki fært að styðja málið.

Að öllu framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að málið verði ekki samþykkt.

Undir þetta álit ritar sá sem hér stendur, Helgi Hrafn Gunnarsson.

Eins og kemur fram í þessu nefndaráliti hefur málsmeðferð þingsins á málinu verið að mínu mati til skammar og ef ekki þá veit ég ekki hvað væri það. Málið kom ekki bara of seint inn í þingið, það eitt og sér er algengt og kemur fyrir og það eru mismerkileg mál, en í þetta sinn gafst ekki einu sinni tími til að senda það til umsagnar. Þetta er dæmigert fyrir viðhorf ríkisins þegar kemur að kirkjujarðasamkomulaginu og málefnum kirkjunnar; ríkisstjórnin, alla vega þessi ríkisstjórn, virðist líta á það sem einkamálefni þjóðkirkjunnar og sitjandi ríkisstjórnar hverju sinni, eins og það komi almenningi bara ekkert við, það þurfi ekkert að vasast í því að fá skoðanir almennings á því eða stofnana úti í bæ eða Alþingis sjálfs ef út í það er farið. Ég skil mætavel að flutningsmenn þessa frumvarps vilji fá það í gegn en það er ekki réttlæting á slíkum vinnubrögðum.

Virðulegi forseti. Þetta mál átti að koma löngu fyrr inn í þingið til að fá viðunandi meðferð. Nú vill svo til að þrátt fyrir að málið hafi ekki verið sent til umsagnar hefur borist ein umsögn, skráð í dag, frá félagi sem heitir Vantrú. Þar er sagt að viðbótarsamningurinn feli í sér nýjar skuldbindingar af hálfu ríkisins þvert á það sem fullyrt er í nefndaráliti meiri hlutans. Nú er þetta eitthvað sem við myndum venjulega ræða í nefnd. Við myndum fá Vantrú á okkar fund, við myndum spyrja þau spurninga, þau fengju að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Svo myndum við spyrja einhverja aðra væntanlega eða okkur sjálf og ræða það eitthvað og komast þá að niðurstöðu en ekki með þeirri hraðsuðuaðferð sem var beitt í þessu máli.

Annað sem hefur verið rætt og var rætt stuttlega í nefnd við ráðuneytið eða biskupsstofu, ég man ekki hvort, er að það að samþykkja ekki þetta frumvarp er sagt kippa fótunum undan viðbótarsamningnum. Í fyrsta lagi, virðulegur forseti, finnst mér það ekkert hræðilegt. Þá geta samningsaðilar bara sest aftur að borðinu og samið um nýjar dagsetningar eða eitthvað annað, samið um þessar greiðslur sem eru núna, samkvæmt kirkjujarðasamkomulaginu frá 1997 sem er enn þá í gildi, óendanlega háar, þ.e. þær ná yfir óendanlega langan tíma þrátt fyrir að jarðirnar séu endanlegar og séu þegar komnar í eignarhald ríkisins. Mér skilst að ríkið hafi meira að segja selt eitthvað af þeim jörðum þannig að það er ekki hægt að skila þeim. Þetta er í raun og veru svolítið eins og að kaupa eitthvað en borga endalaust leigu, þetta er í raun bæði kaupsamningur og leigusamningur.

Vel á minnst. Fólk hér í pontu hefur oft verið að tala um hvað þjóðkirkjan sé ægilega merkileg stofnun. Gott og vel, gefum okkur það bara. Það þýðir ekki að hún eigi að njóta sérstakra forréttinda umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Það eru einfaldlega ekki rök fyrir því. Svo koma þingmenn hér í pontu og dásama þjónustu kirkjunnar sem má allt vera satt og rétt hjá þeim. En þá láta þeir alltaf eins og það sama gildi ekki um önnur trúfélög, eins og önnur trúfélög loki bara hurðinni á fólk eða að önnur trúfélög veiti ekki sálgæslu og sáluhjálp. Þau gera það og þurfa ekki sérstök forréttindi umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög til að sinna því hlutverki, þau hafa einfaldlega ekki þörf fyrir það. Og athugið að þetta eru allt, hver einn og einasti, miklu minni söfnuðir en þjóðkirkjunnar. Þjóðkirkjan hefur yfirgnæfandi stærstan söfnuð, fær yfirgnæfandi mest af sóknargjöldum og mesta stuðninginn, jafnvel þótt ekki sé tekið tillit til sérstakra laga gagnvart þjóðkirkjunni eða hinnar stjórnarskrárbundnu verndar. Ef það væri bara einn trúar- og lífsskoðunarsöfnuður á Íslandi sem gæti staðið undir því hlutverki án þessa ríkisstuðnings væri það þjóðkirkjan, en þeir skipta tugum núna og eru alls konar. Það eru fleiri kristnir söfnuðir, alls konar kristnir söfnuðir, þar á meðal lúterskir, evangelískir, kaþólskir. Það eru íslamskir söfnuðir, alla vega tveir að ég held, og síðan lífsskoðunarfélög sem ná utan um starfsemi sem byggir ekki á svokölluðum trúarbrögðum.

Það er líka þess virði að íhuga það, þegar við tölum um trúmál á Alþingi, hvað það er í raun og veru óeðlilegt, svo meira sé ekki sagt, að ræða trúarbrögð hérna. Sá sem hér stendur hefur ákveðna persónulega trúarsannfæringu sem að hans mati kemur almenningi voða lítið við nema í umræðu um trúarbrögð á einhverjum öðrum vettvangi. Mér finnst það ekki eiga heima hér, einhver biblíulestur eða samanburður á bókum til að leiða fram meintar mótsagnir þar sem við tökumst á um sannleiksgildi fyrstu Mósebókar eða hvernig eigi að túlka opinberunarbókina, enda er það nú þokkalegt verk. En sú vernd sem er í stjórnarskrá gerir það í raun og veru óeðlilega eðlilegt að ræða trúarbrögð efnislega hérna.

Segjum sem svo að ég sem pólitíkus vilji breyta stjórnarskránni á einhvern hátt. Annað eins hefur nú komið fyrir, að þingmönnum detti í hug að breyta stjórnarskrá. Segjum sem svo að ég vilji lagfæra eitthvað í stjórnarskránni, t.d. 2. gr. um dómsvaldið, mig langi til að skýra hana betur, ég hafi einhverja reynslu eða þekkingu á dómskerfinu og sé þeirrar skoðunar að það megi bæta þá grein. Hvað geri ég þá? Ég kem hingað og rökstyð þá breytingu efnislega. Ég kem hingað og útskýri fyrir almenningi og þingheimi og forseta sem best ég get hvers vegna mér finnst að sú breyting eigi að eiga sér stað, byggt á einhverjum undirliggjandi sannleika sem ég tel mig hafa um hvernig dómskerfið virkar og hvernig vernd í 2. gr. stjórnarskrárinnar dugi ekki til. Það sama gildir um allar greinar stjórnarskránni. Ef þingmaður hefur áhuga á að breyta þeim hlýtur hann að þurfa að leggja fram efnisleg rök fyrir þeirri breytingu. En gildir það líka með 62. gr., þjóðkirkjugreinina? Hvað ef ég er kaþólikki? Segjum sem svo að ég sé kaþólikki, mér finnist kaþólsk trú vera rétt. Hvað gerist þá? Jú, þá ætti ég sjálfsagt að koma hingað upp í pontu og rökstyðja hvers vegna hin evangelíska lúterska kirkja ætti ekki að vera þjóðkirkja Íslands og þar af leiðandi með sérstaka vernd heldur kaþólska kirkjan vegna þess að kaþólsk trú sé sannleikurinn. Svo myndi ég fara í biblíulestur og útskýra hvers vegna ég væri þeirrar skoðunar. Þetta þætti mér frekar fráleitt sem hluti af verksviði Alþingis, virðulegi forseti, og ég leyfi mér að fullyrða að þingheimur allur sé sama sinnis, tek mér það bessaleyfi. Hef reyndar áhuga á umræðu ef einhver er ósammála því. Það finnst mér segja allt sem segja þarf um hversu óheppilegt og óeðlilegt fyrir nokkurt stjórnskipunarfyrirkomulag það er að hafa einhvers konar þjóðkirkju eða þjóðartrúarbrögð, alveg eins og mér finnst galið að hafa eitthvert þjóðartrúleysi eða þjóðarlífsskoðun. Þetta fer bara út fyrir verksvið stjórnskipunarinnar. Þetta fer út fyrir verksvið ríkisins, út fyrir verksvið þingsins. Við getum ekki einu sinni rætt þetta efnislega án þess að öllum líði hálfkjánalega eða alkjánalega. Það finnst mér undirstrika punktinn.

Ég vil líka minnast á að í þessu felst engin efnisleg gagnrýni á trúarbrögðin sem undir liggja. Ég er ekki persónulega þeirrar trúarsannfæringar, en það kemur málinu ekkert við. Það snýst ekki heldur um gæði stofnunarinnar eða vinnunnar sem þar er innt af hendi. Þetta snýst um eðli stjórnskipunarinnar, eðli sambands ríkisvaldsins við eitt af því persónulegasta í lífi okkar allra sem er trúarbrögð eða trúleysi eða hvað það er. Þegar allt kemur til alls er þetta persónulegt atriði, kemur almenningi voða lítið við nema fólk hafi áhuga á því að tala um það að eigin frumkvæði eins og reyndar sá sem hér stendur gerir af og til á internetinu góða. En alveg eins og við myndum ekki setja einhvern þjóðartónlistarsmekk eða þjóðarskoðanir um matarsmekk þá eigum við ekki að hafa þjóðartrúarskoðanir, alveg sama hvert sögulega samhengið er. Ég dreg ekkert úr því að þjóðkirkjan hefur skipað mjög stóran sess í sögu Íslands, saga sem er ekki öll jákvæð reyndar en vissulega hefur hún það. Ég held ekki að það hverfi og ég skal fullyrða að sú saga hverfur ekki við það að afnema þessa sérstöku vernd. Sagan verður áfram sagan. Ritaðar heimildir verða áfram til og kirkjan mun áfram sinna því hlutverki sem hún kýs að sinna og meðlimir hennar sækjast eftir frá henni og borga fyrir, jafnvel með skattfé.

Ég vil líka undirstrika að þetta eru ekki einu sinni mótbárur við því að ríkið styðji trú- og lífsskoðunarfélög. Mér finnst það önnur umræða. Ég er á móti sóknargjöldum en mér finnst það geta verið eðlilegt að einhver stuðningur sé við trú- og lífsskoðunarfélög, alveg eins og ríkið styður fótboltafélög og annað sem sumum finnst kannski vera óttaleg tímasóun en öðrum ekki. Aðalatriðið er að trú- og lífsskoðunarfélög standi jafnfætis gagnvart ríkinu, ekki hvort lútersk-evangelíska trúarsannfæringin sé rétt eða röng. Það er eitthvað sem mér finnst ekki við hæfi að ræða hérna, en samt lendi ég í þeirri skringilegu stöðu að til að sannfæra aðra um að breyta lögum, nánar tiltekið stjórnarskránni, þarf ég að fara í efnislega trúarumræðu sem er fáránlegt.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að það hefur verið mikið um þann útúrsnúning í umræðunni sem ég tek eftir og í einstaka fjölmiðlum að hér séu á ferðinni einhverjar árásir á kirkjuna og það er bara rangt, virðulegi forseti. Það er rangt. Þetta er árás á ójafnrétti, árás á ósanngirni, á ómálefnalegan, óeðlilegan og ósanngjarnan samning, á óheilbrigt og óeðlilegt samband ríkis og kirkju. Gagnrýnin er á þessi atriði. Það væri alveg sama hvaða söfnuður væri í húfi. Hér hafa komið upp hv. þingmenn, eins og hv. 5. þm. Reykv. s., og látið í veðri vaka að sá sem hér stendur myndi styðja þennan samning ef um væri að ræða lífsskoðunarfélag sem ég sjálfur tilheyri. Það er rangt, virðulegi forseti. Ég myndi hafna því á nákvæmlega sömu forsendum og ég er á móti sóknargjöldum í því félagi, svo ég segi það nú bara. Ég er á móti því og vil ekki hafa það. Sé enga ástæðu til þess að hafa ríkisstyrki gagnvart því félagi eða nokkrum félögum yfir höfuð. Þótt mér finnist það alveg geta verið málefnalegt að styðja þau sé ég ekki sérstaka ástæðu til þess. Mér finnst það geta verið málefnalegt svo lengi sem það er á jafnræðisgrundvelli.

Það vekur náttúrlega upp aðra spurningu sem er: Hvað ætlar maður að viðurkenna sem trúarbrögð? Er það einungis eitthvað sem var til í gamla daga? Má það ekki vera nýtt? Hvað ef ég fæ nýja hugljómun? Hvað ef guð talar við mig í dag og kemur með algerlega nýjan sannleik sem endurskrifar allt heila klabbið eins og dæmi eru um í trúarsögunni, bæði í Nýja testamentinu og Kóraninum og Mormónsbók? Það kemur af og til fyrir að einhver telur sig hafa öðlast nýjan sannleika og úr því verða trúarbrögð. Ég velti fyrir mér hvernig við myndum fara að því að meta það í dag. Ég held við gætum það illa, virðulegi forseti, og það undirstrikar ekki endilega að þessi trúarbrögð séu öll röng, það eru aðrar og betri aðstæður fyrir þeirri fullyrðingu, heldur óeðlilegt samband ríkis og kirkju. Það er það sem þetta snýst um.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég hef gert grein fyrir því hvað mér finnst slæmt við þessa málsmeðferð, burt séð frá efnisinnihaldinu, og ég býst fastlega við því að þessi umræða haldi áfram svo lengi sem þetta óeðlilega fyrirkomulag verður til staðar. En ég verð þó að segja í lokin að ég fagna einu ákvæði sem er í viðbótarsamningum sem er að heimilt sé að endurskoða það að liðnum 15 árum og, ef ég skil rétt, að ef ekki næst botn í það samkomulag sé hægt að segja því upp en þá gildi enn þá kirkjujarðasamkomulagið frá 1997. Nú þykir mér þetta reyndar líka stórfurðulegt samningsákvæði ef út í það er farið. Ég sé ekki fyrir mér hvernig það myndi eiga sér stað út frá hlutverki löggjafans, að fara aftur til kirkjujarðasamkomulagsins án viðbótarsamningsins. Hvaða upphæð myndi ríkið borga? Hvernig myndi ríkið breyta aftur lögum? Það væri alla vega mjög flókin umræða, held ég. Mér hefur fundist það vera beinlínis markmiðið með þessu kirkjujarðabixi að gera þetta eins flókið og ómögulegt og hægt er fyrir kynslóðir framtíðarinnar að breyta þessu fyrirkomulagi. Það er, virðulegi forseti, ef rétt er, óheiðarlegt og rangt. Fólk ætti að skammast sín ef það tekur þátt í slíku að mínu mati.

Virðulegi forseti. Nú hef ég einu sinni sagst ekki ætla að hafa þetta lengra og nú ætla ég að segja það aftur og í þetta skipti að meina það.