150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[19:52]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fara að greiða atkvæði um mál sem tengist lífskjarasamningnum, mál um breytingar á almenna íbúðakerfinu, íbúðakerfi sem við ætlum að tryggja á næsta ári og að á næstu árum verði 600 nýjar íbúðir byggðar innan þessa kerfis. Málið tengist lífskjarasamningnum sem margir í þessum sal töldu þegar hann var gerður að yrði ekki mögulegt að ná á almennum vinnumarkaði. En af hverju var það hægt? Það var m.a. hægt vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Við vissum að þær aðgerðir myndu kalla á lagafrumvörp og við vissum að það yrði krefjandi að ná því öllu í gegnum þingið á skömmum tíma, að forma frumvörp, koma þeim inn í þingið og klára þau á komandi vetri. Þessari ríkisstjórn er að takast það, m.a. vegna góðs samstarfs við aðila vinnumarkaðarins. En það sem kemur líka í ljós í þinginu er að stjórnarandstaðan sýnir að henni hefði ekki verið treystandi til að ná lífskjarasamningnum í hús vegna þess að hún er ekki tilbúin að vinna málin af þeim gæðum [Háreysti í þingsal.] og á þeim hraða sem er nauðsynlegur.

Ég er ótrúlega stoltur af því að tilheyra þeirri ríkisstjórn (Forseti hringir.) sem er að klára lífskjarasamninginn með þessu frumvarpi og hinum tveimur frumvörpunum sem við greiddum atkvæði um áðan. (Gripið fram í.)