150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:44]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er enn eitt málið í langri röð mála sem ríkisstjórnin leggur fram með engum eða minnsta mögulega fyrirvara fyrir Alþingi. Það er eins og stærsti ótti þessarar ríkisstjórnar sé að Alþingi fái tíma til að fjalla um þau mál sem hún leggur fyrir þingið og þess vegna virðast þau flest hafa verið geymd alveg fram á síðustu stundu. Það mál sem hér er um að ræða er alveg stórfurðulegt og það hefði verið mikill kostur ef þingið hefði fengið einhvern tíma til að fjalla m.a. um hvort það stæðist yfir höfuð lög að gera samninga með þessum hætti. (Gripið fram í.) Hér er verið að gera samning til 15 ára, reyndar ótímabundinn samning en þó að lágmarki til 15 ára, en samkvæmt 40. gr. laga um opinber fjármál er meginreglan sú að ekki séu gerðir samningar til lengri tíma en fimm ára í senn. Það er það fyrsta. Þetta er íþyngjandi breyting frá fyrra samkomulagi fyrir ríkið þvert á hagsmuni skattgreiðenda í þessu máli.

Það er alveg makalaust að sjá vinnubrögðin í þessu tiltekna máli og þess vegna greiði ég atkvæði (Forseti hringir.) gegn því.