150. löggjafarþing — 46. fundur,  17. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[00:03]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hef átt nokkur samtöl við hv. þingmann um ýmislegt, ekki öll gáfuleg en samtöl okkar um fjölmiðla hafa verið það. Okkur greinir í nokkrum grundvallaratriðum á um ýmislegt, sérstaklega er lýtur að Ríkisútvarpinu, en í grunninn held ég að við séum sammála um að við berum hag fjölmiðla fyrir brjósti. Ég held, og hv. þingmaður leiðréttir mig ef ég fer rangt með, að við deilum báðir áhyggjum af stöðu fjölmiðla. Ég ætla að ganga svo langt fyrir mína parta að segja að aðgerða sé þörf núna hvað varðar einkarekna fjölmiðla. Er hv. þingmaður sammála mér um það?

Og já, það er hægt að finna að öllum frumvörpum og tillögum sem lögð eru fram, að þetta sé ekki nákvæmlega eins og maður vildi. Hv. þingmaður talaði um að hann væri nú viss um að hans skoðun á Ríkisútvarpinu væri ekki endilega allra — kannski ekki endilega heldur flokks hv. þingmanns sem hefur nú verið með ráðuneyti þess útvarps um árabil án þess að fara eftir þeim tillögum sem hv. þingmaður kynnir hér um Ríkisútvarpið. En það er önnur saga.

Það sem mig langaði að fá frá hv. þingmanni í mínu fyrra andsvari er akkúrat þetta: Hér erum við með stuðningskerfi sem gengur út á að gera það sem ég held að ég og hv. þingmaður séum sammála um að gera, þ.e. styðja einkarekna fjölmiðla. Af hverju getum við ekki horft á þann hluta kerfisins í þessari tillögu? Á þann ávinning sem af því hefst og getur skipt sköpum núna í rekstri fjölmarga fjölmiðla?