150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

dánaraðstoð.

486. mál
[10:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég skil þessa beiðni á þann veg að hún sé í raun undirbúningur að lagafrumvarpi þess efnis að dánaraðstoð verði að veruleika hér á landi. Eins og kunnugt er er dánaraðstoð óheimil á Íslandi. Nú þegar er til ágætisefni hér á landi um dánaraðstoð, svo það sé sagt, t.d. nýleg meistaraprófsritgerð í lögfræði um dánaraðstoð. Þar er m.a. að finna samanburð á löggjöf og lagaframkvæmd í Hollandi og Belgíu þar sem dánaraðstoð er leyfð. Einnig er umfjöllun um lagaframkvæmd í Sviss. Ég skil þetta mál þannig, herra forseti, að verði það samþykkt sé hugsanlega aðeins tímaspursmál þar til umræður um að lögfesta rýmri rétt til að deyja verði teknar á Alþingi. Það hugnast mér ekki vegna þess að álitamálin eru mjög flókin og eiga sér siðferðilegar, faglegar, lagalegar og trúarlegar hliðar.

Miðflokkurinn greiðir ekki atkvæði.