150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

aðdragandi og afleiðingar óveðurs dagana 9.--11. desember 2019, viðbúnaður og úrbætur.

493. mál
[10:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég held að þessi beiðni skýri sig nokkuð sjálf. Það er augljóslega vilji hjá framkvæmdarvaldinu og víðar að læra af því sem úrskeiðis kann að hafa farið í undirbúningi og mögulega því sem á eftir fylgdi þegar við horfum á óveðrið sem gekk yfir landið fyrir nokkrum dögum. Það er mikilvægt að þingið sé vel upplýst og þess vegna teljum við mikilvægt að sú skýrsla sem óskað er eftir hér verði lögð fyrir þingið. Ekki er nein dagsetning á því hvenær hæstv. forsætisráðherra ætti að skila skýrslunni til okkar en gert er ráð fyrir að það verði á þessu þingi. Ég held að það sé óþarfi að draga skýrsluskilin.

Ég vona að þingmenn samþykki að þingið verði upplýst með þessum ítarlega hætti. Í skýrslubeiðninni eru taldir upp ýmsir liðir sem vert er að svara, ekki tæmandi, kannski auðvelt að svara sumum, kannski óþarfi að svara sumum. Við látum það í hendur ráðherra og beiðninni er beint til forsætisráðherra þar sem svo mörg ráðuneyti og svo margar stofnanir koma að svona málum.