150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

staðfesting ríkisreiknings 2018.

431. mál
[10:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Ég taldi mig í örstuttri ræðu hafa gert grein fyrir einmitt þessu.

Þetta stendur aðskilið. Með endurskoðunarskýrslunni gerir ríkisendurskoðandi sína endurskoðun sem stofnun þingsins en gefur jafnframt fjárlaganefnd sem fulltrúa þingsins tækifæri til að fylgja eftir ábendingum sem koma fram í endurskoðunarskýrslu sjálfstætt og auka þannig þekkingu Alþingis á reikningsskilum opinberra aðila. Það stendur alveg sjálfstætt og óháð niðurstöðum ríkisreiknings sem gefur glögga mynd, eins og kemur fram í áliti ríkisendurskoðanda, af stöðu eigna og skulda (Gripið fram í.) — nú erum við farin að færa eignir og skuldir (Gripið fram í.)— og rekstrarafkomunni og breytingum á eigin fé. Lengra nær það ekki og þetta frumvarp er einfalt í sinni mynd. Þennan reikning er ríkisendurskoðandi búinn að endurskoða fyrir þingið.

Það sem við erum að gera í þessu einfalda frumvarpi er bara að staðfesta ríkisreikninginn eins og hann birtist okkur. Það sem við höfum hins vegar gert og er til bóta er að kalla eftir aukinni greiningu í ríkisreikningnum sjálfum. Ég get vísað þar í sérstakt yfirlit sem gefur okkur í þinginu færi á að bera saman á GFS-staðlinum þannig að við höfum sambærilegar tölur við fjárlögin um þróunina á útgjöldum og útgjaldaheimildum þannig að við höfum sambærilegar stærðir. Það er munur á IPSAS og GFS í þessu tilviki (Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður veit.