150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, ein mikilvægustu skilaboðin í fæðingarorlofslögunum eins og þau eru núna eru þau sem felast í að tryggja það að báðir foreldrar taki sem jafnastan hluta af fæðingarorlofinu. Það er líka sett inn í þann hluta sem snýr að næsta ári, þ.e. þá styttum við óskipta tímann úr þremur í tvo og lengjum fasta tímann úr þremur í fjóra. Eins og ég hef rakið í andsvörum er hins í gangi endurskoðun á þessum lögum í heild. Einn af kostunum sem um var að velja er að fara þá leið að lögfesta einungis tíu mánuði í þessari ferð en ekki þykir góður bragur á því (Forseti hringir.) og þess vegna ákváðum við að setja 12 mánuðina með þessum áskilnaði inn í bráðabirgðaákvæðið og að endurskoðunarnefndin og ráðherra fái þá það verkefni að klára það. Ég geri sjálfur frekar ráð fyrir að það kunni að vera í samræmi við þá jafnréttisáætlun sem þegar hefur verið samþykkt en ég get ekki sagt til um það á þessum tíma.