150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

eftirlit með gjaldeyrisútboðum Seðlabankans.

[13:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki fullyrða neitt um það að þetta hafi verið nægjanlegt til að uppræta möguleikana á því eða komast á snoðir um tilraunir til peningaþvættis í þessum gjörningum, ekki frekar en að með fjölgun í lögreglunni myndum við trúa því að við gætum komið í veg fyrir innbrot eða þjófnað, búðahnupl, eitthvað slíkt. En það verða hins vegar að vera til staðar reglur og það verður að vera eitthvert kerfi og það þarf að vera eftirlit. Í þessu svari sem vitnað er til þá er, já, bent á að þetta hafi verið sett upp með þeim hætti að gagnaðili Seðlabankans hafi verið innlendu fjármálafyrirtækin, þau hafi ákveðnum skyldum að gegna. Það sem við vitum eftir úttekt á Íslandi vegna þátttöku okkar í alþjóðastarfi um þessi efni — ég er hér að vísa til FATF-úttektarinnar — er að það komu ekki í ljós sérstakir veikleikar í fjármálafyrirtækjunum sem voru grundvöllur grálistunar. Hins vegar kom fram hjá fjármálaeftirlitinu innan lands að það voru vissir verkferlar hjá sumum fjármálafyrirtækjum sem þurftu einhverja yfirferð. Þetta höfum við séð í nýlegri opinberri umræðu um þessi mál.

Ef menn vilja bera það undir mig hvort ég sé alveg viss um að það hafi verið gætt að öllu sem máli skipti þá get ég ekki sagt að ég sé 100% viss um það. Ég kom svo sem sjálfur ekki að eftirlitinu með þessu en það áttu þeir að gera sem tóku þátt og ef við höfum vísbendingar um að þátttaka í útboðunum hafi verið einhver af hálfu þeirra sem voru með ólöglega peninga þá er mikilvægt að þeir sem rannsaka slíka hluti fái upplýsingar um það.