150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég lagði áherslu á að við tækjum vel á móti því fólki sem við bjóðum hingað, tækjum vel á móti flóttamönnum eins og við höfum gert í allmarga áratugi, flóttamönnum sem fara þá leið sem önnur ríki og við, að því er ég taldi, viljum reyna að beina þessum vanda í, þ.e. bestu leiðina til þess að takast á við þennan umfangsmikla vanda. Ef það á að tryggja sömu réttindi fyrir þá sem ýmist koma hingað eða eru sendir hingað, sem eru mörg dæmi um líka, tryggja þeim sömu réttindi og kvótaflóttamönnum sem hingað er boðið, þá kallar það í fyrsta lagi á mjög verulega aukin útgjöld sem við kunnum að geta staðið undir í einhver ár. En það kallar líka á mjög aukna fjölgun í þeim hópi, fjölgun þeirra sem fara aðra leið en fram að þessu hefur verið talin besta leiðin til að takast á við þennan vanda. Og hverjir eru það sem helst beina fólki í þann farveg? Því miður iðulega glæpagengi, eins og ég rakti áðan, sem auglýsa ferðir til landa Evrópu, ekki hvað síst á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum, og nýta sér þær aðstæður sem boðið er upp á til þess að misnota það fólk sem er í vanda.

Við þurfum að hafa leiðir til að taka á móti fólki sem gera okkur kleift að aðstoða þá sem eru í mestri neyð og gera það á mannsæmandi hátt. Sú leið sem hér er farin er ekki til þess fallin. Ég ítreka það sem ég benti á áðan. Skoðið bara samanburðinn við Norðurlöndin og reynslu þeirra af þessu tvennu og hvernig það reyndist að reyna að sameina það í eitt.