150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala.

459. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans skarplegu athugasemdir. Ég tel að þær séu gott innlegg í þetta mál og það verður ágætt fyrir hv. nefnd þegar hún fer að fjalla um málið að sjá þær athugasemdir.

Hv. þingmaður nefndi meðalhófið sem er mjög mikilvægt. Ég vildi nefna sömuleiðis að þetta úrræði er ætlað til þrautavara, það er algjört neyðarúrræði og það verður að vera búið að reyna allar færar leiðir áður. Þetta er ekkert gamanspaug eins og segir í ágætri bók. Þetta er ekki einfalt mál og það er ekki eins og fjármálakerfið missi sig af fögnuði þegar mál af þessu tagi eru borin fram. Ég feta hér í fótspor ágæts fólks sem hefur á undan mér lagt fram frumvörp af þessu tagi. Þetta er í annað sinn sem ég flyt þetta frumvarp og ég vonast eftir góðum stuðningi við það. Ég myndi vilja segja að almennt talað er mikil þörf á því að rétta það sem við viljum kalla ójafnvægi í stöðu á milli neytenda og lánveitenda. Mér verður líka hugsað til þess, þótt það sé annað, meira og stærra umræðuefni, hvernig lánastofnanir geta komið fólki inn á vanskilaskrá. Það er mál sem þyrfti að ræða mjög ítarlega hér.