150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala.

459. mál
[16:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda rosalega langa ræðu. Ég segi það einungis í þeirri von að hún verði stutt. Þegar maður segist ætla að halda stutta ræðu verður hún yfirleitt mjög löng. Ég kem hingað aðallega til að lýsa yfir stuðningi við frumvarpið. Ég verð að viðurkenna að útfærslan á því er tiltölulega frábrugðin því sem var þegar hv. þm. Ólafur Ísleifsson lagði það fram síðast en þá var sá sem hér stendur og fleiri meðflutningsmenn á því. Útfærslan í þetta sinn þykir mér áhugaverð og í fljótu bragði, með fyrirvara um að við höfum ekki fengið nefndarálit hv. efnahags- og viðskiptanefndar eða umsagnir um þessa útfærslu, þykir mér hún nákvæmari og betri.

Það er þess virði að fara aðeins út í það sem hv. þingmaður minntist á, a.m.k. örstutt. Ég var reyndar ekki í salnum alla tímann sem hv. þingmaður flutti ræðu sína. Það varðar það hvernig lánastofnanir bregðast við þegar settar eru hömlur á það hvað þeim er heimilt að semja um. Það er alveg þess virði að taka slíkar áhyggjur alvarlega, jafnvel þótt þær komi innan úr einhverju bankakerfi, en að sama skapi þurfum við að passa okkur á því að láta það ekki viðgangast að alltaf þegar bankakerfið eða fjármálageirinn setur sig upp á móti einhverju eða bendir á einhver hliðaráhrif sé hugmyndin sjálfkrafa ómöguleg. Í þessu tilviki gæti t.d. einhverjum dottið í hug að vaxtaálag myndi hækka vegna þess að bankinn þyrfti að gera ráð fyrir því að þurfa að græða meira á lánunum sínum ef ske kynni að það þyrfti að fara í nauðungarsölu með þeim afleiðingum að lántakandinn gæti ekki greitt allt til baka heldur einungis virði íbúðarinnar sem er á nauðungarsölu. Vitaskuld erum við einungis að tala í kringumstæðum þar sem það virði er lægra en það sem eftir stendur af láninu, nokkuð sem væntanlega er ekki mjög algengt nema í tilfelli verðtryggðra húsnæðislána í dag, geri ég ráð fyrir án þess að hafa skoðað þær tölur nýlega.

Aftur á móti verð ég að vekja athygli á ágætri umsögn frá Má Wolfgang Mixa frá því seinast þegar þetta var lagt fram. Sá ágæti hagfræðingur og lektor hefur tilhneigingu til að segja þveröfugt við það sem mér dettur fyrst í hug sem er líka ástæðan fyrir því að ég legg við hlustir þegar hann talar. Rökstuðningurinn eins og ég skil hann felur í sér að með þessu frumvarpi þar sem bankar eru neyddir til að taka þetta með í reikninginn leiðir af sér ábyrgari lánveitingar. Þegar bankar lána alveg villt og galið verður til ákveðið ábyrgðarleysi í lánveitingum sem eykur líkurnar á því að lán verði ekki borguð sem leiðir til nauðungarsölu eða þess háttar. Það þýðir að kostnaður bankans sem hann þarf eða telur sig þurfa að græða á þeim lánum leggst í formi hærri vaxta á aðra neytendur sem standa í skilum. Þetta frumvarp gæti átt þátt í því, í það minnsta frá sjónarhorni hagfræðinnar, að halda vaxtahækkunum í skefjum eða jafnvel lækkað vexti. Það hefur a.m.k. vonandi þau áhrif.

Eins og komið hefur fram er útfærslan á þessu í talsverðu frábrugðin og ítarlegri og vandaðri en hefur verið í fyrri framlögnum sem hafa komið frá ýmsum þingmönnum, þar á meðal þingmönnum Pírata í eitthvert sinn. Háttvirtur þáverandi þingmaður, Lilja Mósesdóttir, lagði fram svipað mál og fleiri hafa lýst yfir stuðningi við það. Ég verð að segja að ég er sérstaklega spenntur fyrir því að sjá málið koma út úr hv. efnahags- og viðskiptanefnd, með nefndaráliti vænti ég, og þær umsagnir sem munu fjalla um útfærsluleiðina sem er valin í þessu frumvarpi.

Ég ætla að reyna að vera ekki með langa ræðu heldur vildi ég fyrst og fremst koma hingað upp til að lýsa yfir stuðningi við þetta mál, taka af öll tvímæli um það og sömuleiðis benda á þessa ágætu umsögn frá háttvirtum lektor Má Wolfgang Mixa frá seinustu framlagningu þar sem hliðaráhrifin af svona málum eru oft ekki alveg nákvæmlega þau sem manni dettur fyrst í hug, enda hagfræðin oft og tíðum flókin og smekkfull af hliðaráhrifum af öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir framlagningu frumvarpsins og hlakka til að sjá það komast út úr nefnd sem ég býst fastlega við að það geri.