150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:01]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get vel tekið undir það að við byggjum á kristnum gildum. Það hefur verið hefðin og ég held að það sé mikilvægt að halda í hana. En á sama tíma aðhyllumst við trúfrelsi og fjölmenning í því sambandi er af hinu góða. Þess vegna held ég að við verðum að horfa opnum huga til þess að fólk hefur mismunandi trú og mér finnst að hið opinbera eigi að gera allt sem í þess valdi stendur til að gera fólki kleift að iðka sína trú. En ég ætla kannski að fara betur yfir það í ræðu á eftir.

Með lögum um gatnagerð og ýmsum ákvæðum er lúta að einhverju sem kallað er ókeypis — það er í raun ekkert ókeypis í þessum heimi. Ég held að þar séum við svolítið komin út í skurð. Ég veit ekki hvort þetta ákvæði, eins og það er sett í þessum lögum, eigi vel heima þar í dag. En það breytir því ekki að ég vona að hér haldi áfram að rísa hús til að iðka trú í því að ég held að það skipti samfélög mjög miklu máli.