150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:34]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég veitti því athygli að hv. þingmaður eyddi fyrstu mínútum ræðu sinnar í að reyna að benda á einhvers konar tortryggilegheit í því að það værum við Píratar sem værum að leggja fram svona mál og jafnvel að gera það tortryggilegt að aðrir væru með okkur í því. Við því hef ég það eitt að segja að mér þykir eftirtektarvert að þeir einu sem hafa talað gegn þessu hingað til hafa verið þingmenn Miðflokksins. En það er ekki erindið. Mig langar að fá svar hjá hv. þingmanni. Ef ég myndi selja hv. þingmanni hús, væri eðlilegt að til staðar væri lagaleg krafa um að ég gæti krafist ókeypis herbergis einhvern tímann í framtíðinni? Ef ég myndi selja hv. þingmanni köku, væri þá eðlilegt að til staðar væri lagaleg krafa um að ég gæti gert kröfu um sneið einhvern tímann í framtíðinni?

Nú er það þannig að með kirkjujarðasamkomulaginu voru stunduð viðskipti þar sem jarðir voru keyptar á óhemjuháu verði, en engu að síður áttu viðskipti sér stað. Er eðlilegt að til sé ákvæði í lögum um að gefa verði hluta af því til baka? Höfum í huga, í ljósi ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar áðan, að það er rétt að sum sveitarfélög voru á kirkjujörðum en þau voru það ekki öll. Þau voru það alls ekki öll. En þessi krafa sem er til staðar í lögum í dag gildir um öll sveitarfélög. Þar er gerð krafa um að sveitarfélög gefi lóðir til trúfélaga þrátt fyrir viðskipti og ekki er hægt að vísa í sögulegar réttlætingar á því. Mig langar því að skilja hugsanagang hv. þingmanns.