150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

staðan í Miðausturlöndum.

[10:36]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur hér upp og segir að það sé eitthvað óljóst varðandi utanríkisstefnu Íslands. Segir að eitt Norðurlandanna sé með græna stefnu. Hefur hún ekki verið áberandi í utanríkisstefnu Íslands? Hefur hv. þingmaður ekkert fylgst með? Hv. þingmaður vísar líka í jafnréttismálin. Bíddu, virðulegi forseti, hv. þingmaður er í utanríkismálanefnd. Er hann í alvöru að halda því fram að þessi ríkisstjórn hafi ekki lagt áherslu á umhverfismálin, sérstaklega loftslagsmálin, og jafnréttismálin? Er hv. þingmaður í alvöru að segja það? Það er bara sérstakt rannsóknarefni að hv. þingmaður hefði ekki tekið eftir þeim áherslum sem alls staðar koma fram. (LE: … svara spurningunni.)

Hvað varðar meint lögmæti þessara árása höfum við verið á nákvæmlega sama stað og þær þjóðir sem ég vísaði til og við höfum ekki tekið neina sérstaka afstöðu til þess að öðru leyti en því að við höfum hvatt til stillingar, þegar kemur að pólitískum lausnum. Á sama tíma, virðulegi forseti, svo vakin sé athygli á því, hafa Íranar verið með mjög miklar ögranir, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, (Forseti hringir.) og við fórum vel yfir það á fundi utanríkismálanefndar.