150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér er fram undan. Við ræðum stefnu stjórnvalda í matvælaframleiðslu með tilliti til matvælaöryggis og loftslagsmála. Verkefnið Matarauður Íslands sem hefur verið í gangi á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skilað góðum árangri og skapað vitundarvakningu um íslenska matarmenningu. Verkefninu var fyrst í stað ætlað að efla ímynd okkar innan lands sem matvælaþjóðar og auka með því ásókn í íslenskar matvörur og að styrkja verkefni sem stuðla að eflingu matarferðaþjónustu og annarra atvinnutækifæra í tengslum við matarauð okkar um allt land. Við búum við þau skilyrði að geta framleitt bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarvörur með sjálfbærum hætti og höfum þar gífurlega mikil tækifæri.

Verkefninu er fyrst í stað ætlað að efla ímynd okkar innan lands sem matvælaþjóðar og það hefur gengið mjög vel. Það hefur orðið mikil vitundarvakning meðal matvælaframleiðanda í öllum greinum og samvinna þeirra skiptir miklu máli til að markaðssetja okkur sem matvælaþjóð sem byggir á matarmenningu og hefðum sem vekur áhuga ferðamanna jafnt sem heimamanna á íslenskum matarauði. Það er orðin mikil ásókn í svæðisbundin matvæli og það er mikilvægt að sinna kalli neytanda um lífræna ræktun, rekjanleika og upprunavottun. Það er ánægjulegt að verkefni í samvinnu við Matarauð Íslands hafa farið af stað vítt og breitt um landið og það er mikill hugur í mönnum að sækja fram í matar- og vöruþróun. Ég átti þess kost að sitja einn slíkan fund á Þingeyri á síðasta ári og það var mjög spennandi og ánægjulegt að heyra hjá framleiðendum sem komu á þann fund hve mikill hugur var í fólki að gera það besta úr því hráefni sem er úr að spila. Litlu fyrirtækin skipta miklu máli, Beint frá býli hefur gefist vel og REKO, milliliðalaus viðskipti á Facebook, hafa verið að aukast og verið er að skoða möguleika á örsláturhúsum sem draga munu úr kostnaði kjötframleiðenda við að eiga milliliðalaust viðskipti. Það skiptir máli og við verðum að leita allra leiða til að gera það mögulegt án þess að gefa afslátt af heilbrigði og hreinleika matvæla.

Ég vil leggja fyrir hæstv. ráðherra eftirfarandi spurningar: Hverjar eru áherslur hæstv. ráðherra í matvælaframleiðslu innan lands með tilliti til matvælaöryggis og loftslagsmála? Hvaða verkefni eru nú í vinnslu sem styðja við fullnýtingu afurða og aukinn virðisauka í nærumhverfi framleiðslunnar? Hvernig telur ráðherra að hægt sé að lækka aðgangshindranir á sölu beint til neytenda frá matvælafyrirtækjum, t.d. með breyttu regluverki? Hvernig gengur innleiðing innkaupastefnu opinberra aðila, að það sé horft til íslenskrar framleiðslu á matvælum í þeim efnum? Hvaða tækifæri sér ráðherra í aukinni ylrækt og lífrænni ræktun á Íslandi? Ég veit að möguleikar á örsláturhúsum hafa verið í skoðun og mér þætti líka forvitnilegt að vita hvar sú vinna stendur.

Það verður fróðlegt að heyra viðbrögð annarra þingmanna í þessari umræðu og viðbrögð hæstv. ráðherra í þessum málum. Ég tel að við höfum gífurleg tækifæri til að þróa okkur áfram. Hingað til landsins koma tvær milljónir ferðamanna á hverju ári og það þarf að fæða þann fjölda ásamt þjóðinni. Hlutur íslenskrar framleiðslu á því matarborði skiptir miklu máli. Ég held að við gerum okkur ekki grein fyrir því hvað við höfum úr góðum og öflugum tækifærum að spila. Við þurfum að horfa til menntunar fólks í þessum geira og styðja við alla þá sem eru með hugmyndir og hjálpa þeim að þróa þær þannig að þær geti orðið að endanlegri framleiðsluvöru og farið á markað. En ég læt þetta duga í bili.