150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

málefni ferðaþjónustunnar.

[10:50]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Spurt er hvort ég hafi áhyggjur af stöðu greinarinnar og vissulega hef ég áhyggjur af stöðu greinarinnar þegar kemur að verðmætasköpun innan hennar, stöðu hennar í því efnahagsumhverfi sem við erum í núna. Sá samdráttur sem við horfum fram á bítur ferðaþjónustuna a.m.k. ekki minna og jafnvel meira en aðrar greinar.

Ferðaþjónustan er auðvitað ofboðslega mannaflsfrek atvinnugrein. Það er ekki hægt að líta fram hjá þeirri þróun sem átt hefur sér stað hér á Íslandi undanfarin ár þegar kemur að launahækkunum og launahlutfall í ferðaþjónustu er mjög hátt. Ráðuneytið er til að mynda að klára samning við Íslandsstofu, það er hlutverk Íslandsstofu að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland. Sá samningur er sterkur og ég veit að Íslandsstofa hefur farið í stefnumörkun. Þar er ferðaþjónustan að sjálfsögðu einn helsti áherslupunktur. Við höfum eflt markaðsstofurnar úti um allt land og erum í frekari vinnu hvað það varðar þegar kemur að stoðkerfi ferðaþjónustunnar um landið. Við höfum farið í meiri háttar stefnumótun þar sem við höfum greinina með, þar sem við göngum í takt og erum sammála um hvert stefnir.

Hagræðing er að eiga sér stað innan greinarinnar. Fyrirtæki munu fara á hausinn, það liggur fyrir. Það er hluti af markaðnum og þau áföll sem við höfum orðið fyrir flýta þeirri þróun. Og þegar spurt er hvort ég muni beita mér þegar kemur að Seðlabankanum þá er Seðlabankinn ofboðslega sjálfstætt stjórnvald og ég geri ráð fyrir því að þar séu þessir þættir greindir sömuleiðis. En ég vil bara að það komi fram að við höfum bæði verið að auka fjármagn í rannsóknir, í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, erum að fara að segja frá úthlutunum þar mjög fljótlega, og höfum tekið á heimagistingu. Mitt seinna svar nýtist þá í að tala um það hversu mikla trú ég hef á þessari grein og framtíðarhorfum hennar.