150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

viðbrögð við yfirvofandi efnahagsvanda.

[10:35]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Við erum að takast á við fordæmalausar aðstæður sem krefjast óvenjumikils samtakamáttar. Forseti Seðlabanka Evrópu hefur sagt að við gætum verið að sigla inn í svipað ástand og 2008 ef ríki heimsins bregðast ekki við með róttækum hætti. Ríkisstjórn Íslands hefur verið að hreyfa sig en enn er það of óljóst og of máttlaust. Við megum ekki bíða eftir því að veruleikinn teiknist einhvern veginn upp heldur þurfum við að sýna frumkvæði, áræðni, æðruleysi og kjark. Þótt þjóðarbúið standi vel er velferðarkerfið í þeim mun veikari málum af því að hér hefur verið rekin hægri stefna í nokkur ár. Við höfum svelt heilbrigðiskerfið, innviðirnir hafa fengið að grotna niður, jöfnunartækin hafa verið veikt. Nú er tími til að ráðast í aðgerðir og snúa þessari þróun við, blása lífi í lítil fyrirtæki, auka græna atvinnustarfsemi, en síðast en ekki síst þurfum við að styrkja velferðarkerfið þannig að fólkið, heimilin í landinu, geti tekist á við niðursveifluna fram undan. Við þurfum skýr svör, hæstv. forsætisráðherra.

Hvernig ætlum við að bregðast við auknu atvinnuleysi? Hvernig munum við bregðast við ferðabanni til Bandaríkjanna? Hvaða aðgerðir þurfum við að ráðast í fyrir fólkið og heimilin í landinu? Og hvernig útfærum við nánar þegar birtar aðgerðir í þágu fyrirtækja?

Samfylkingin vill vinna af heilum hug að lausnum með ríkisstjórn Íslands en ég spyr á móti: Mun ríkisstjórnin kalla stjórnarandstöðuna, launþegahreyfinguna og fulltrúa atvinnulífsins að borðinu til að móta lausnir og framfylgja þeim á öruggan og markvissan hátt?

Hæstv. forsætisráðherra. Það vill þannig til að nú erum við öll stödd í sama bátnum og við þurfum einfaldlega allar hendur á dekk.