150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

staðan vegna Covid-19.

[10:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það er nú þannig með reynsluna að hún er góð og mikilvæg ef menn reyna að læra af henni. Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra, í tengslum við hrunið þurfti fólk að standa saman. Margar ákvarðanir voru góðar en margar líka síðri. Það sem skiptir mestu máli er að ekki verði boðið upp í dans í pólitískri tækifærismennsku, að ríkisstjórn og stjórnarandstaða standi saman og ali ekki, eins og ég segi, á einhverjum hræðsluáróðri heldur miklu frekar að við förum út úr þessu með þeim tækjum og tólum sem fást í gegnum samstöðu og samheldni, að við vinnum að því að nýta þá krafta og þá orku sem eru í íslensku samfélagi. Það verður ekki gert með því að sigla frá lýðræðislegum ákvörðunum og lýðræðislegum tækjum, sem eru svo mikilvæg fyrir okkur, heldur með því að nýta krafta allra og nýta kraftana sem felast í lýðræðinu, dýnamíkinni sem felst í lýðræðinu.

Ég hef gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir slælega upplýsingagjöf og að veita ekki skýr svör. Mér fannst blaðamannafundurinn um daginn ekki góður, fyrirtækin eru enn þá í limbói yfir því hvernig verði brugðist við. Gerum þetta saman, förum yfir þetta saman, (Forseti hringir.) veitum skýr svör. Ég hvet ríkisstjórnina til dáða hvað það varðar og ég vil líka hrósa henni fyrir að hafa svarað Bandaríkjamönnum almennilega. Hæstv. utanríkisráðherra, vel gert.