150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

frestun fjármálaáætlunar.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrirspurnin. Í fyrsta lagi get ég glatt hv. þingmann með því að fjárfestingarplan eða áætlun ríkisstjórnarinnar mun ekki bíða þess að við leggjum fram fjármálaáætlun. Hins vegar held ég að við hv. þingmaður séum sammála um það að eins og staðan er núna í hagkerfi heimsins sé marklaust að setja fram fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Við þurfum að átta okkur betur á stöðunni áður en hún verður lögð fram en hins vegar væntum við þess að við getum lagt fram fjárfestingaráætlun sem getur farið af stað strax á þessu ári. Það er mjög mikilvægt að bregðast bæði við fyrirséðri kólnun hagkerfisins en ekki síður þeirri viðbótarkólnun sem kann að verða vegna faraldursins og þess sem hefur orðið í kjölfar hans. Ég vísa til tíðinda næturinnar. Það er mjög mikilvægt að við bregðumst við strax á þessu ári þannig að ég vænti þess að fjárfestingarplanið verði kynnt sérstaklega síðar í þessum mánuði. Það verður að sjálfsögðu líka tekið til umræðu á Alþingi því að, eins og ég sagði áðan, það skiptir máli hvað þingmenn hafa að segja um þessi mál. Það gildir einu hvaðan gott kemur og það er mikilvægt að þetta verði afgreitt í sem breiðastri samstöðu á þinginu og það gerum við þá með sértækum aðgerðum.

Hvað varðar bundnar innstæður ÍL-sjóðs sem hafa verið inni í Seðlabanka var ekki búið að taka ákvörðun um að þær skyldu fara út í viðskiptabankana þótt fyrir lægi að þær hefðu verið aðskildar frá öðrum þáttum þegar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun var sett á laggirnar. Hins vegar var þetta nefnt sem einn möguleikanna. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að þetta verði gert. Áætlunin er sú að styrkja lausafjárstöðu bankanna þannig að þeir geti þá veitt fyrirtækjum aukna fyrirgreiðslu.