150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðgerðir til aðstoðar heimilunum.

[13:48]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Útbreiðsla Covid-19, landamæralokanir og samdráttur í efnahagskerfi heimsins mun koma til með að hafa mikil áhrif á íslenska þjóð og íslenskt efnahagslíf með tilheyrandi áhrifum á einstaklinga, fjölskyldur og heimilin í landinu. Fjármálaráðherra talar um 100 milljarða halla ríkissjóðs á árinu 2020 og því skipta viðbrögð okkar sem förum með ríkisfjármálin miklu máli og að við pössum upp á að ríkisfjármálunum sé háttað þannig að draga úr skaðlegum áhrifum þessarar efnahagslægðar á fyrirtækin en líka fyrir fólkið. Almenningur hefur áhyggjur, skiljanlega, sem magnast stöðugt upp vegna frétta erlendis frá um lokanir á heilu hagkerfunum, vöruskort og hrun markaða en íslenska ríkisstjórnin hefur verið helst til sein, því miður, að upplýsa þjóðina um hvað standi raunverulega til að gera. Og nú kannast ég vel við þær aðgerðir sem hafa verið boðaðar. En ég er að tala um: Hvar er stóri pakkinn sem við erum að sjá hjá nágrannaþjóðum, þessar stóru aðgerðir, fjárfestingin í fólkinu í landinu? Ég vil því gefa hæstv. fjármálaráðherra þetta tækifæri til að upplýsa fólkið í landinu um hvað standi til að gera til að verja heimilin í landinu því að sporin hræða, forseti. Ég efast ekki um að margir óttist að sagan endurtaki sig frá hruni þar sem fólk missti heimili sín, tekjur, öryggi og lífsgæði. Ég spyr: Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera til að verja öryggi og lífsgæði Íslendinga?