150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19.

[14:10]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég tek undir ráð annarra þingmanna hér í dag þegar ég óska hæstv. ráðherrum og ríkisstjórn velgengni í vinnu sinni við viðbrögð við þessari miklu heilsufars- og efnahagsvá sem við stöndum frammi fyrir. Af því að hæstv. félagsmálaráðherra talaði rétt í þessu um nauðsyn þess að hlaupa hratt er staðreyndin sú að fjölmarga er farið að lengja eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Við höfum séð ríkisstjórnir landa í kringum okkur þegar hafa brugðist við með afgerandi hætti og kynnt afgerandi aðgerðir til stuðnings við efnahagslífið en enn bíðum við svara frá ríkisstjórninni.

Ég hjó aðeins eftir því í orðum hæstv. fjármálaráðherra í morgun í viðtali þegar hann sagðist gera ráð fyrir því að afkoma ríkissjóðs yrði neikvæð um 100 milljarða kr. á þessu ári. Ég geri fastlega ráð fyrir því, þó að ég hafi fullan skilning og beri virðingu fyrir því, að það er erfitt að áætla við þessar kringumstæður, að þetta byggi á einhverri sviðsmyndagreiningu í fjármálaráðuneytinu og þá hlýtur fyrsta spurningin eiginlega að vera sú, af því að því öll erum við að bíða eftir svörum frá ríkisstjórninni um hvaða aðgerða eigi að grípa til og hvert umfang þeirra verði: Er þessi áætlaði 100 milljarða halli ríkissjóðs á þessu ári að teknu tilliti til aðgerða ríkisstjórnarinnar eða ekki? Ég held að það sé dálítið brýnt meðan við bíðum svara frá ríkisstjórninni um nákvæmlega hvað eigi að gera að við áttum okkur alla vega á umfanginu. Getur hæstv. ráðherra þá upplýst okkur í grófum dráttum um hvert verður umfang aðgerða ríkisstjórnarinnar við þessari efnahagsvá sem við stöndum frammi fyrir?