150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

staða námsmanna.

[14:20]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og fyrir að beina sjónum sérstaklega að menntakerfinu. Ég vil upplýsa hv. þingmann um það að nú þegar höfum við stofnað samráðshóp þvert á öll skólastig, leikskóla, grunnskóla, háskóla og endurmenntun. Þar eru líka fulltrúar stúdenta. Ég vil líka upplýsa hv. þingmann um að Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur þegar veitt ákveðnar tilslakanir sem varða námsframvindu og gerði það í síðustu viku þannig að við erum þegar byrjuð.

Ég er að fullu meðvituð um að þetta eru óvenjulegir tímar, fordæmalausar aðstæður. Það er búið að loka háskólum, nemendur eru komnir í fjarnám. Sama á við um framhaldsskólastigið og skólastarf í leikskólum og grunnskólum er takmörkunum háð. En það er mjög mikilvægt að við skoðum einmitt það sem við hefðum mögulega getað gert betur í síðasta áfalli þjóðarinnar, fjármálahruninu. Ég get sagt hv. þingmanni það að við erum í daglegum samskiptum við stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna og framkvæmdastjóra til þess einmitt að huga að þessu og reyna eins og við getum að mynda eina heild til að takast á við þetta. Við megum heldur ekki gleyma því að við erum í afskaplega erfiðum aðstæðum eins og þær eru núna en þetta eru tímabundnar aðstæður. Við þurfum að passa upp á þá sem eru í veikri eða erfiðri stöðu, að við náum utan um þann hóp.