150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

gagnsæi brúarlána.

[11:04]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Nýverið var samþykkt heimild fyrir ríkistryggðum brúarlánum til fyrirtækja í vanda. Þetta er ein stærsta aðgerð ríkisstjórnarinnar. Ég hef þó áhyggjur af að þessi leið nýtist ekki vel litlu fyrirtækjunum sem í raun þurfa ekki lán heldur styrki. Ekkert bólar á slíku hjá þessari ríkisstjórn sem gleymir litlum og meðalstórum fyrirtækjum eins og oft áður. Brúarlánin munu njóta allt að 70% ríkisábyrgðar og því má ekki vera neinn feluleikur hér. Almenningur en ekki hvað síst önnur fyrirtæki sem munu ekki njóta ríkisábyrgðar eiga rétt á að vita hvaða samkeppnisfyrirtæki njóta þessara ríkistryggðu brúarlána. Hér má ekki skýla sér á bak við bankaleynd — eða stendur það til, minn kæri ráðherra? Með þessu úrræði tekur íslenskur almenningur á sig allt að 50 milljarða kr. ríkisábyrgð til fyrirtækja og þess vegna þarf þetta að vera uppi á borðinu. Þannig og aðeins þannig tryggjum við jafnræði og gagnsæi.

Herra forseti. Við erum búin að fá nóg af gráum listum og pilsfaldakapítalisma. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra tveggja einfaldra og beinna spurninga.

Í fyrra lagi: Stendur til að upplýsa hvaða fyrirtæki munu fá ríkistryggð brúarlán? Þetta er mjög mikilvæg spurning því að það á eftir að setja skilyrðin fyrir brúarlánunum og ráðherra setur þau skilyrði í samvinnu við Seðlabankann.

Í síðara lagi: Hvernig ætlar ráðherra að koma í veg fyrir að þau fyrirtæki sem munu njóta ríkistryggðu brúarlánanna geti greitt sér arð í gegnum dótturfélög eins og fréttir benda til að hugsanlega sé hægt?