150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

stuðningur við sveitarfélögin.

[10:53]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að taka mér skáldaleyfi hér og túlka svar hæstv. ráðherra þannig að passað verði upp á hag Reykjavíkur í þessum aðgerðum sveitarfélaga. Ég vil aðeins nefna skýrsluna um ferðamálin, af því að ég er sammála ráðherra um að ekki sé viðeigandi að vera með slík orð hér, en það er kannski hægt að bera það saman við mikil útgjöld samgöngumálaráðherra til vegaframkvæmda, vegaframkvæmdir skila sér síðan í auknum tekjum í sveitarfélögin af því að það komast svo margir til og frá, t.d. ferðamenn. Ég myndi telja að þetta væri sambærilegt við skýrslu Reykjavíkurborgar án þess að ég hafi lesið hana niður í kjölinn.

Mig langar til að velta því upp aftur í ljósi þess að í aðgerðapakka er um að ræða tímabundnar aðgerðir og vonandi þurfa þær ekki að vera annað en nákvæmlega það, tímabundnar, hvort hæstv. sveitarstjórnarráðherra og ríkisstjórnin hafi velt fyrir sér að fara í tímabundnar aðgerðir með stærri hluta af tekjuskattsstofninum sem þau deila með ríkissjóði í útsvari. Ég veit að hæstv. ráðherra kom aðeins inn á það áðan, en engu að síður hlýtur að vera eitthvað sem er íhugunarefni vegna þess að það þýðir þá (Forseti hringir.) að sveitarfélögin hafa hvert um sig ákveðið sjálfdæmi um þær aðgerðir sem þau ráðast í. Við höfum mjög oft talað um að ákveðnar aðgerðir og ákvarðanir eigi best heima í hverju sveitarfélagi fyrir sig.