150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vildi koma inn á umsögn sem barst nefndinni frá Valgerði Rúnarsdóttur, sérfræðilækni í lyflækningum og fíknlækningum, framkvæmdastjóra lækninga hjá SÁÁ. Þar kemur fram að það sé mjög mikilvægt að passa upp á það að verkefnið vinni ekki gegn sjálfu sér, sem hlýtur að vera markmið þess í eðli sínu. Það þarf að leitast við að þessi hópur verði ávallt eins lítill og mögulegt er.

Telur hv. þingmaður ekki hættu á því að með þessu aðgengi, refsilausa aðgengi, sem stefnt er að í frumvarpinu komi til með að fjölga í þessum hópi? Er ekki hætta á því? Jafnvel þeir sem hafa kannski verið í einhverjum meðferðarúrræðum eiga þarna allt í einu kannski auðveldari aðgang að neyslunni. Ef hv. þingmaður gæti farið yfir þennan þátt.

Auk þess leggur Valgerður Rúnarsdóttir sérfræðilæknir í umsögn sinni áherslu á að samanburður við útlönd sé erfiður. Við búum við betri skilyrði en flestir þegar verið er að ræða þessi mál erlendis og neyslurými tengd þeim. Við erum náttúrlega lítil þjóð og Reykjavíkurborg er lítil í samanburði við stórborgir. Ef hv. þingmaður gæti aðeins komið inn á samanburð við útlönd sem sú sem leggur fram þessa umsögn telur vera villandi.