150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er svolítið sammála og svolítið ósammála því sem hv. þingmaður sagði. Í fyrsta lagi er ég sammála því að menntun er fjárfesting til framtíðar. En á sama tíma, þegar við erum að fjárfesta í framtíðinni, þarf reikningsdæmið að ganga upp. Hv. þingmaður talaði um, og það kemur fram í nefndaráliti hans, að hann vilji hækka styrk ríkisins úr 30% í 40%. Hvað kostar það? Það væri áhugavert að vita.

Einnig talaði hann um að hægt væri að sækja sérstaklega um styrk vegna framfærslu barna. Ég átta mig ekki alveg á hvað þingmanninum gengur til þarna. Eins og lögin eru sett upp er í raun um að ræða eitt kerfi sem skiptist í tvo hluta. Við erum með lánakerfi og fólk tekur lán undir ákveðnum skilyrðum. Í mínum huga — þetta verður eflaust tekið fyrir á milli umræðna — er í fyrsta lagi ekki hægt að slíta þetta í sundur. Í öðru lagi erum við með önnur kerfi eins og barnabótakerfið sem kemur til móts við fólk sem er með börn á framfæri. Á sama tíma varpa ég þessari spurningu til þingmannsins: Hefur hann einhverja hugmynd um hvað slíkt myndi kosta? Gefum okkur að fræðilega séð myndum við bara rífa þetta í sundur og henda þessu svona inn. Hvað kostar það?

Ég vil einnig spyrja þingmanninn um framfærsluna: Nú kemur fram í meirihlutaálitinu að mikilvægt sé að halda í sveigjanleikann. Á sama tíma beinum við því til sjóðstjórnar að fólk geti lifað af þessari framfærslu og það er skýr vilji meiri hluta nefndarinnar að svo verði. Ég velti fyrir mér: Hvernig sæi þingmaðurinn það þá fyrir sér að að vilji þingsins yrði enn skýrari? Hvernig myndi þingmaðurinn vilja koma þessu frá sér svo að þetta yrði enn betra?

Ég er mjög ósammála því að meiri hlutinn sé metnaðarlaus. (Forseti hringir.) Mér finnst meirihlutaálitið mjög metnaðarfullt og gott.