150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

fullgilding valkvæðs viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

620. mál
[11:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að ég var meðflutningsmaður á þingsályktunartillögu hv. þingmanns um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar eru auðvitað mjög skýr markmið, fyrst og fremst að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra.

Það sem ég lagði til þegar ég kom inn í ráðuneytið varðandi þennan samning, en líka valkvæða viðaukann sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni hér í dag, og var raunar samþykkt með þingsályktun 2016 að fullgilda eins og þingmaðurinn vísaði til, var að það yrði að eiga sér stað úttekt á því hvað það fæli í sér fyrir okkur að gangast undir slíkar skuldbindingar. Slíkt hafði ekki verið gert varðandi valkvæða viðaukann, nákvæmlega hvað fullgilding hans þýddi og hvernig þetta myndi virka en ekki síst að leggja á það kostnaðarmat áður en við kláruðum slíkt verkefni. Einnig þyrfti að meta hvaða árangur gæti hlotist af, hver væri árangur annarra ríkja, hvernig þetta samræmdist okkar reglum og hvað við þyrftum kannski að laga áður en við gætum staðið við þær skuldbindingar, sem ég vona þó að við séum að gera að flestu leyti hvað varðar samninginn sérstaklega.

Ég vildi fara í slíka skoðun og samráð í ráðuneytinu. Það hefur þó staðið talsvert á því vegna Covid-anna, vegna verkefna sem hafa komið upp og tafið þá vinnu, þannig að ég vil ekki lofa einhverri tímasetningu fyrr en það liggur fyrir. En ég held að það sé mikilvægt að fá þá greiningu áður en þetta verður klárað.

Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns varðandi þennan samning. Þetta er öflugt tæki í baráttunni fyrir fullum mannréttindum fatlaðs fólks en við þurfum auðvitað líka að horfa til þess að við teljum þau mannréttindi vera tryggð í dag. Ég hef óskað eftir því að þessi vinna fari af stað í ráðuneytinu en hún hefur tafist og ég get því ekki gefið nákvæma tímasetningu á þeirri vinnu.