150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

framkvæmdir á vegum NATO hér á landi.

825. mál
[13:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og fyrirspyrjanda, Páli Magnússyni, fyrir mjög mikilvæga fyrirspurn og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Í mínum huga snýr málið ekki síst að þjóðaröryggisstefnu Íslands sem ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til að fara eftir og það kemur fram í stjórnarsáttmála hennar:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að öryggismál þjóðarinnar séu í traustum skorðum. Þjóðaröryggisstefna Íslands sem samþykkt var af Alþingi verður höfð að leiðarljósi.“

Þetta er ríkisstjórnin hins vegar ekki að gera. Það er alger forsenda fyrir samstarfi okkar við bandalagsþjóðir okkar í NATO og Bandaríkin að varnarmannvirkin sem við höfum skuldbundið okkur til að hafa í lagi séu í lagi. Það er komið að verulegu viðhaldi á þessum mannvirkjum sem ráðherra hefur lagt til að verði ráðist í en því var hafnað. Það finnst mér alvarlegur hlutur. Ég verð að segja, herra forseti, að ég get ekki séð að öryggismál þjóðarinnar séu í traustum skorðum (Forseti hringir.) þegar ríkisstjórnin hafnar tillögu utanríkisráðherra og fer í raun og veru ekki eftir þjóðaröryggisstefnunni.