150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:37]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir afskaplega áhugaverða spurningu. Þetta er kannski akkúrat það sem hefur skort svolítið upp á hjá okkur, þ.e. að horfa á heildarmyndina, að vera með einhverja sýn. Ég ætla í sjálfu sér að hrósa stjórnsýslunni fyrir það að eftir hrun, eftir árið 2010, hafa verið stigin stór skref í átt að því að hugsa stefnumótun ríkisins upp á nýtt. Við sáum merki um það í samgönguáætluninni að við erum farin að setja niður markmið, áherslur og leiðir. En það vantar samt enn þá svolítið upp á stóra samtalið, þ.e. að við setjumst niður og reynum að sjá fyrir okkur, eins og hv. þingmaður orðaði það í spurningunni, heildarkerfið. Hvernig viljum við sjá kerfið fúnkera? Erum við t.d., eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, alveg sátt við að allar samgöngur innan lands, eins og í fluginu, þurfi alltaf að fara í gegnum Reykjavík? Eða viljum við hafa stærra samgöngunet eins og var í gamla daga, þegar ég var ung? Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægur punktur sem hv. þingmaður kom inn á. Við þurfum að setja þetta niður fyrir okkur og kannski í stærra samtali en hér innan húss, bara við landsmenn, hvaða þjónustu við viljum hafa og hvaða þjónustu við viljum sjá og hvaða þjónustu við teljum jafnvel óþarfa. Ég held að almenningssamgöngur, bæði innan borgar og utan, séu mjög mikilvægur þáttur í því.